Lög Geðverndarfélags Íslands
1. gr.
Félagið heitir Geðverndarfélag Íslands. Aðsetur þess er í Reykjavík. Félagið getur auk þess starfað í staðbundnum deildum. Verða þá settar reglur fyrir þær af aðalfundi félagsins jafnóðum og þær eru stofnaðar.
2. gr.
Tilgangur félagsins er:
a) Að vekja almenning og stjórnarvöld til aukins skilnings á mikilvægi geðheilbrigði fyrir alla menn, unga sem gamla.
b) Sameina alla þá, sem áhuga hafa á málefnum, er geðheilbrigði varða, svo sem lækna, sálfræðinga, presta, kennara, hjúkrunarfólk, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, svo og alla aðra einstaklinga, félagsheildir og stofnanir, sem til greina geta komið.
c) Fræða almenning um eðli geðsjúkdóma, mikilvægi sálarlífsins fyrir almenna heilbrigði og kynna ríkjandi skoðanir á því hvernig varðveita megi geðheilbrigði.
d) Stuðla að því, að jafnan verði komið upp nægum og viðunandi heilbrigðisstofnunum fyrir þá sem líða af geðsjúkdómum (psychosis) eða hugsýki (neurosis), eða öðrum geðröskunum.
e) Stuðla að auknum rannsóknum, sem verða megi til aukinnar geðheilbrigði.
f) Taka þátt í alþjóðlegri samvinnu um geðheilbrigðismál og hugrækt.
g) Vinna málefnum geðsjúkra og verndun geðheilbrigði lið á hvern þann hátt annan er við verður komið.
3. gr.
Tilgangi sínum vill félagið ná:
a) Með ritum og fræðsluerindum eftir því sem efni og ástæður leyfa.
b) Með samvinnu við stjórnarvöld landsins, bæja- og sveitayfirvöld, heilbrigðismálastjórn, fræðslumálastjórn, Tryggingastofnun ríkisins og aðra opinbera aðila er til greina koma.
c) Með samvinnu við önnur félög, sem vinna að heilbrigðis- og líknarmálum, einkum þau er vinna að endurþjálfun og velferð öryrkja.
d) Með því að reisa og reka, ef aðstæður leyfa, stofnanir, svo sem endurþjálfunarheimili eða leiðbeiningastöðvar fyrir þá, sem líða af geðsjúkdómum eða hugsýki.
e) Með því að fylgjast með ráðstöfunum, sem gerðar eru til verndar börnum og láta sig varða uppeldisleg vandamál, er áhrif geta haft á geðheilbrigði.
f) Með því að láta til sín taka hverjar þær framkvæmdir aðrar, sem mega verða málefnum félagsins til framdráttar.
4. gr.
Félagar geta orðið einstaklingar og félög, hvaðan sem er af landinu, sem áhuga hafa á málefnum, er þýðingu hafa fyrir geðheilbrigði.
5. gr.
Stjórn félagsins skipa 7 menn, formaður, varaformaður , fundarritari, bréfritari, gjaldkeri og 2 meðstjórnendur. Formaður skal kjörinn sérstaklega. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Aðalfundur kýs einnig sérstaklega 3 varamenn í stjórn félagsins.
6. gr.
Starfsár félagsins er almanaksárið. Aðalfund skal halda fyrir apríllok ár hvert. Skal hann boðaður með auglýsingu í dagblöðum borgarinnar eða bréflega með minnst viku fyrirvara.
Aðalfundur er löglegur, ef löglega er til hans boðað.
Á aðalfundi eiga atkvæðisrétt allir skuldlausir einstakir félagar, en auk þess einn fulltrúi fyrir hverja 100 meðlimi (eða hluta úr hundraði) félags, sem er í Geðverndarfélaginu, þó ekki fleiri en fimm frá einu og sama félagi.
Verkefni aðalfundar eru:
a) Stjórnin gefur skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu ári.
b) Gjaldkeri leggur fram til samþykktar endurskoðaða reikninga ársins.
c) Lagabreytingar, ef nokkrar eru.
d) Kosning formanns, stjórnar og tveggja skoðunarmanna.
e) Formaður gerir grein fyrir helstu verkefnum, sem framundan kunnna að virðast.
f) Árgjald ákveðið til eins árs í senn.
g) Önnur mál.
7. gr.
Skylt er félagsmönnum að taka sæti í stjórn, ef þeir eru til þess kjörnir og ekki til hindrunar ástæður, sem aðalfundur tekur gildar. Þó geta menn neitað endurkjöri, þegar þeir hafa átt sæti í stjórn í 2 kjörtímabil samfleytt.
8. gr.
Félagsfund skal halda, þegar stjórnin ákveður eða minnst 20 félagsmenn krefjast þess og tilgreina fundarefni. Stjórnarfund skal halda, þegar formaður ákveður eða meiri hluti stjórnarmanna æskir þess. Stjórnin getur falið einstökum félagsmönnum að inna af hendi störf í þágu félagsins og einnig skipað sérstakar nefndir í sama tilgangi.
9. gr.
Lögum þessum má breyta á aðalfundi, og þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða til breytinga.
10. gr.
Komi til félagsslita, skulu ráðuneytisstjóri Félagsmálaráðuneytisins, Prófessorinn í geðlæknisfræði við Háskóla Íslands og Landlæknir ráðstafa eignum félagsins til styrktar málefnum, sem næst því eru að vera í samræmi til tilgang félagsins.
Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 20. mars 2010.