Stefna Geðverndarfélagsins

Félagið samþykkti stefnu félagsins um geðheilbrigði ungra barna á Íslandi á aðalfundi 2018.

Félagið var stofnað í janúar 1950 og meðal fyrstu verkefna þess var að taka þátt í uppbyggingu Reykjalundar sem tryggði geðsjúkum a.m.k. 20 rúm og var það gert með sérstökum samningum. Félagið rak einnig um árabil tvö svokölluð vernduð heimili og áfangaheimili að Álfalandi 15 fyrir 8 skjólstæðinga. Endurhæfing var því meginstefna félagsins frá upphafi.

Síðan hafa liðið mörg ár og ríki og sveitarfélög komið meir að rekstri málaflokksins og samtímis því hefur Geðverndarfélagið dregið sig út úr rekstri heimila með samningum við Reykjavíkurborg og Landspítala Háskólasjúkrahús.

Félagið hefur á undanförnum 10 árum verið að feta sig á nýjar slóðir. Stór þáttur í menningu og hefðum félagsins hefur verið að sinna þeim verkefnum sem ríki og sveitarfélög sinna ekki, félagið lítur á sig sem forystuafl og brautryðjanda í geðheilbrgigðismálum á Íslandi. Fyrstu starfsár félagsins fóru í að koma geðsjúkum af götunni inn á vernduð heimili og stofnanir. Þar gegndi félagið sannarlega mikilvægu forystuhlutverki og verkefnum sem síðan hafa fallið í hendur ríkis og sveitarfélaga.

Nú lítur félagið svo á að hlutverki þess í endurhæfingu sé lokið. Stjórn félagsins hefur á undanförnum árum snúið sér meir að málefnum ungra barna, mæðra og fjölskyldna, m.a. með áherslu á “fjölskyldubrú” sem varð hluti af geðheilbrigðisstefnu sem Alþingi samþykkti 29. apríl 2016.

Með þessum breyttu áherslum samþykkti aðalfundur Geðverndarfélagsins 2018 nýja stefnu. Hún fer hér á eftir:

Stefna

Geðverndarfélags Íslands (GÍ)

um geðheilbrigði ungra barna á Íslandi

Inngangur
Gagnreyndar rannsóknir sýna að tíminn frá getnaði til tveggja ára aldurs er afgerandi fyrir þroska og velferð barna.  Nærandi og næm umönnun ungbarna er grundvallaratriði sem leggur grunninn að góðri sjálfsmynd, andlegri og líkamlegri heilsu og félagslegri velferð á fullorðinsárum. Að leggja góðan grunn í upphafi æviskeiðs í lífi barna eykur líkur á farsæld á fullorðinsárum sem stuðlar að hagsæld  fyrir samfélagið allt. Rannsóknir sýna að snemmtækur stuðningur og sálfélagsleg inngrip við fjölskyldur ungbarna kostar lítið miðað samfélagslegan kostnað ef ekkert er að gert –  niðurstaðan er sparnaður fyrir samfélagið.  London School of Economics (LSE)  gaf út skýrslu árið 2014 sem sýndi að fyrir hverja krónu sem eytt er í þennan málaflokk mætti spara 30. Miðað við íslenskan raunveruleika og árlega fæðingartíðni mætti spara 7 milljarða íslenskra króna fyrir hvern árgang með því að sinna foreldrum á meðgöngu og börnum þeirra fyrstu tvö árin á fullnægjandi hátt.

Það, hvernig við önnumst börn frá fæðingu til tveggja ára aldurs, ræður framtíð þeirra sem hefur í kjölfarið áhrif á framtíð samfélags okkar. Ástrík, örugg og traust samskipti barns og foreldra ásamt lærdómshvetjandi fjölskyldu og heimili, byggir upp:

 • tilfinningalega vellíðan (stundum kallað geðheilbrigði barns);
 • hæfni til að móta og viðhalda jákvæðum samskiptum við aðra;
 • heilann og heilbrigða heilastarfsemi (um 80% af vexti heilans á sér stað fyrir þriggja ára aldur)
 • móðurmálsfærni, og
 • hæfileikann til að læra (“mjúku” eiginleikarnir til að tengjast öðrum, þrífast vel og í framhaldinu fara að læra “hörð” sannindi sem varða leið að námi síðar meir: að öllu þessu er grunnurinn lagður á fyrstu mánuðum í lífi hvers barns. Lítill stuðningur, sérstaklega þegar barni er ekki forðað frá ofbeldi eða vanrækslu, getur haft varanleg áhrif á líf þess).

Rannsóknir hafa einnig sýnt að að því betur sem haldið er utan um fjölskyldur og börn sem aðstandendur geðsjúkra, t.a.m. með samtali þar sem öll fjölskyldan kemur saman, því betur líður allri fjölskyldunni og líkur minnka á að veikindi flytjist áfram til næstu kynslóðar. Mikilvægt er að fjölskyldan einangrist ekki og reyni að fela hinn veika fyrir umheiminum.

Sýnt hefur verið fram á að áföll af ýmsum toga geta haft margþætt áhrif á lífsskilyrði og lífsgæði. Það sem hefur komið í ljós á síðustu áratugum er að börn geta upplifað áföll (relational trauma) vegna álags og veikinda innan fjölskyldunnar.  Þessi áföll eru ekki alltaf sýnileg öðrum þar sem þau eiga sér stað innan veggja heimilisins og þess vegna verið kölluð ,,hinn þögli faraldur”. Komið hefur í ljós að afleiðingar slíkra áfalla geta verið langvinn og haft í för með sér “bresti” í bæði andlegri og líkamlegri heilsu.

Alvarleg áföll í bernsku, þegar heilinn er enn í mótun, hafa almennt meiri áhrif en þau sem við verðum fyrir síðar á lífsleiðinni og því er mikið fengið með því að forða börnum frá því að lenda í erfiðum aðstæðum og minnka skaðann með snemmtækum stuðningi og inngripum.

Stefna Geðverndarfélags Íslands
GÍ álítur að geðheilbrigðisþjónustu eigi að byggja á þrepunum sem koma fram á myndinni hér að framan:

SAMFÉLAG

 • Efla þarf samfélagslega meðvitund um mikilvægi fyrstu tveggja áranna í lífi hvers barns, frá getnaði. Auka þarf almenna þekkingu og skilning á að hvert barn fái tækifæri til heilbrigðrar tengslamyndunar við foreldra og að það sé verndað fyrir afleiðingum þunglyndis foreldra, ofbeldis og áfengis- og eiturlyfjaneyslu þeirra.
 • Efla þarf almenna vitund og þekkingu á afleiðingum áfalla í bernsku og auka þekkingu og notkun ACE  spurningalistans (Adverse Childhood Experience International  Questionnaire) til að greina og kortleggja vandann svo hægt sé að vísa í viðeigandi úrræði.

HEILSUGÆSLAN

 • Heilsugæslan þarf að verða vettvangur þverfaglegrar vinnu með fjölskyldum, konum á meðgöngu, fjölskyldu og barni fyrstu tvö ár í lífi þess. Mikilvægt er að fagfólk heilsugæslunnar geti greint heilsufars- og þroskavanda barna út frá samspili við umönnunaraðila.
 • Fjölskyldubrúin er gagnreynt úrræði sem miðar að því að hindra að börn verði fyrir neikvæðum áhrifum vegna veikinda foreldra sinna. Slíkt úrræði ættiað vera hluti af starfsemi allra heilsugæslustöðva ásamt því að vera hluti af úrræðum sérfræðiþjónustu á spítala.
 • Fjölskylduhús á að starfrækja í samstarfi heilsugæslu, sveitarfélags og velferðarsamtaka í hverju sveitarfélagi. Fjölskylduhúsið er vettvangur þverfaglegrar vinnu með fjölskyldum, sérstaklega þeim sem standa höllum fæti.

SÉRHÆFÐ ÞJÓNUSTA

 • Veita á sérhæfða þjónustu þeim fjölskyldum sem standa höllum fæti, s.s. með meiri þjónustu, tíðari heimsóknum og nákvæmara eftirliti. Slík þjónusta á ekki að hafa í för með sér kostnað fyrir fjölskyldur. Þetta má gera að fyrirmynd breska Family Nurse Partnership Programme, Solihull Approach ofl.
 • Þessi úrræði gætu verið til staðar í fyrstastigs-þjónustu heilsugæslunnar þar sem  veitt er viðbótarþjónusta við það sem allir fá.

SJÚKRAHÚS

 • Sjúkrahús veitir sérhæfða þjónustu við alvarlegum geðheilsuvanda með þverfaglegri sérhæfðri fjölskyldu-miðaðri nálgun.

Geðverndarfélag Íslands telur að til þess að bæta aðstæður barna í íslensku þjóðfélagi fyrstu árin þurfi að

 • stytta vinnuvikuna til að foreldrar fái meiri tíma með börnum sínum
 • lengja fæðingarorlof í 18 mánuði
 • styrkja fagþekkingu starfsfólks leikskóla og ráða fleiri leikskólakennara í stað ófagmenntaðs starfsfólks
 • auka skilning og þekkingu stjórnmálamanna á mikilvægi fyrstu áranna í lífi hvers barns
 • stofna Fjölskylduhús í samstarfi heilsugæslu, sveitarfélags og velferðarsamtaka þar sem fjölskyldur og börn geta hist og átt samskipti til að auka tengsl og haft aðgang að fagfólki þegar á þarf að halda

Geðverndarfélagið telur einnig að mynda eigi stuðningshópa fyrir börn og unglinga sem eiga geðveika foreldra sem heilsugæslan / Fjölskylduhús haldi utan um.

Geðverndarfélagið telur brýnt að ítarlegar rannsóknir verði framkvæmdar á  aðstæðum barna á Íslandi í samvinnu við háskóla landsins.