Höfundur: Rebacca Johnson

Allar færslur höfundar

Engin gríma fyrir nein börn: Þekking á heilaþroska, hegðun og skynseginleika á skólaárunum er grundvallaratriði þess að efla tilfinningagreind

Engin gríma fyrir nein börn: Þekking á heilaþroska, hegðun og skynseginleika á skólaárunum er grundvallaratriði þess að efla tilfinningagreind

Skólar

  1. nóvember 2024

 

Dr. Rebecca Johnson

 

Kennarar segja að slæm hegðun verði til þess að sá tími sem gefst til kennslu verður minni og að hún hafi neikvæð áhrif á heilsu þeirra og getu til að kenna. Það er því engin furða að þær íhlutanir sem skólar nota hvað mest til að takast á við hegðun eru tilvísanir til sérfræðiþjónustu (meira en 90%) og algengt er að brottrekstur úr kennslustofu (77%)* sé notaður sem svokölluð endursetning.

„Í hegðun felast samskipti. Hegðun tjáir oft tilfinningalegar þarfir. Færni til að tempra eigin tilfinningar er enn í mótun hjá börnum og ungmennum og lykillinn að því að stuðla að vitsmunaþroska (og námsárangri) er að efla tilfinningagreind.“

Tilfinningagreind – þroski barna, grunnatriðin

Börn læra að skilja, vinna úr og tempra tilfinningar sínar í gegnum reynslu sína með öðrum, sérstaklega foreldrum sínum og öðrum fullorðnum sem þau treysta á, sem og af því að fylgjast með þeim, og þetta tekur tíma.

Það getur verið krefjandi og yfirþyrmandi þegar tilfinningar barna espast upp í skólaumhverfinu, meðal jafningja, við félagslegar breytingar, við ranglæti daglegs lífs og þar frameftir götunum. Sum þeirra geta jafnvel brugðist við á öfgafullan hátt (einkennilega, á afar svipmikinn og stundum ágengan hátt, eða jafnvel með mikilli hlédrægni og doða).

Það getur verið gagnlegt að skilja og vita að þegar við erum orðin fullorðin sér framheilinn, eða rökheilinn, um þessar tilfinningar sem og þær skyndihvatir sem þeim (oftar en ekki) fylgja. Hann metur aðstæður og notar fyrri reynslu til að ákvarða hvort fyrsta og mjög svo hraða túlkun randkerfisins, eða tilfinningaheilans, (streitustig er of hátt = ógn) sé rétt eða ekki. Þegar tilfinningaheilinn ræsir ranglega hættuboð, sér rökheilinn um að draga úr og stöðva lífeðlisfræðilegu varnarviðbrögðin (með því að virkja seftaugakerfið) og manneskjan getur aðlagað hegðun sína.

Heilar eru að sjálfsögðu allir mismunandi, lífsreynsla og erfðir verða samhliða til þess að taugabrautir mótast í heilanum frá fæðingu (og jafnvel fyrr). Þess vegna eru viðbrögð mannsheilans við yfirþyrmandi örvun, t.d. lífeðlisfræðilegri, hugrænni, tilfinningalegri og skynörvun, mjög fjölbreytileg. Hver manneskja er einstök.

Umhygð

Frá því við fæðumst treystum við á aðra til að styðja okkur tilfinningalega. Sem ungbörn finnst okkur gott að fá líkamlega umhygð, róandi faðmlag og nánd við annan rólegan hjartslátt og andardrátt, það temprar okkur bæði líkamlega og tilfinningalega. Ungbörn þurfa einnig á tilfinningalegri umhygð að halda, þ.e. að heili annarrar manneskju átti sig á hvernig barni líður og sýni því að tilfinningar og skynhrif sé hægt að umbera, það sé hægt að leyfa þeim að streyma í gegn, að þörfum verði sinnt og að tilfinningin líði hjá.

Eftir því sem börn stækka og þroskast þurfa þau áfram á huggun og stuðningi að halda til að vinna úr tilfinningum sínum og þau geta tjáð stórar og erfiðar tilfinningar, oft í gegnum hegðun. Þegar foreldri eða annar fullorðinn veitir barni umhygð með því að hlusta vandlega og af nærgætni, getur það unnið úr þessum tilfinningum. Smám saman tileinkar barnið eða ungmennið sér þetta og getur þar með byrjað sjálft að tempra tilfinningar sínar, alltaf betur og betur.

Börn geta haldið áfram að tileinka sér og þróa leiðir til að tempra tilfinningar og róa taugakerfið eftir því sem þau þroskast og vaxa. Þegar þeim er veitt umhygð fá þau „lánaða“ virkni í heila annarrar manneskju þegar virkni hjá þeim er ekki til staðar.

Unglingsárin eru tímabil mikilla breytinga, þar sem heilinn hreinsar, styrkir og mótar nýjar taugabrautir. Á þessu tímabili standa ungmenni frammi fyrir nýjum áskorunum við úrvinnslu tilfinninga og stuðningur annarra og umhygð er gríðarlega mikilvæg, þrátt fyrir að þau geti einnig stundum sýnt þroskuð tilfinningaleg viðbrögð og hegðun.

Stuðlað að af-möskun

Stundum verður heilinn oförvaður, annað hvort vegna hás örvunarstigs eða mikils magns örvandi áreita ýmist úr ytra umhverfinu eða innra tilfinningalega umhverfinu. Til að halda neikvæðri athygli í lágmarki og þar með yfirþyrmandi tilfinningum, er auk varnarviðbragðanna (flótti eða árás) í boði að frjósa eða verða stjarfur. Sama streituhormónið er við lýði.

Möskun, eða það að setja upp grímu, í þeirri von að okkur sé ekki veitt nein athygli, er þegar við reynum að hegða okkur þannig að við séum álitin „eðlileg“. Við getum til dæmis reynt að fela skynsegin eiginleika okkar til að forðast óvelkomna athygli og reyna að falla inn í félagslegt umhverfi okkar. Algengt er að stúlkur á einhverfurófinu maski. Það getur tekið afskaplega mikinn toll að maska og með tímanum getur það leitt til kulnunar, lokunar (e. shutdown) og/eða geðrænna vandamála.

Umhverfi þar sem ekki er nægilegt tilfinningalegt öryggi til að sýna og vera opinskár um það hver maður er, hver persónuleiki, þarfir eða áhugamál manns eru óháð því hvort maður sé skynsegin eða ekki, ýtir undir möskun. Tollurinn er kannski hærri fyrir skynsegin börn, en það er streituvaldandi fyrir alla að vera daglangt í skóla þar sem sambönd eru ekki þungamiðja hugmyndafræði og stefnu skólans. Þetta gæti verið lykillinn að því að skilja í hvaða aðstæðum geðrænni heilsu hrakar og hvers vegna „hliðarverkanir“ skóla, líkt og klínískur sálfræðingur lýsir því, geta verið svo skaðlegar mörgum nemendum.

Einhverra hluta vegna sjáum við alltaf betur og betur að þetta er raunin hjá svo mörgum ungmennum í skólum. Ég er alls ekki að segja að öll möskun sé álíka streituvaldandi, en það sem virkar fyrir skynsegin nemendur mun efla þroska allra nemenda (að stuðla að tilfinningaþroska þeirra jafnt og vitsmunaþroska).

Lykillinn að því að styðja við og styrkja börn er að stuðla að samkennd, sjálfstilvitund og samþykkja það að öll erum við ólík. Tilfinningagreind snýr meðal annars að því að læra um okkar eigin þörf til að tempra eigin tilfinningar, sem og að því að virða þarfir annarra, jafnvel hlúa að þeim. Ef skólar geta skapað umhverfi sem stuðlar að tilfinningagreind og þar sem hún er sett í forgang, geta öll börn (og allt starfslið skólans) þrifist og dafnað þegar kemur að tilfinningaþroska, og þar með einnig vitsmunaþroska (námsárangri).

*Landlæg skýrsla um hegðun

 

Dr. Rebecca Johnson

Ráðgjafi fyrir klíníska barnasálfræðinga og verkefnastjóri Solihull aðferðarinnar

 

Engin gríma fyrir nein börn: Þekking á heilaþroska, hegðun og skynseginleika á skólaárunum er grundvallaratriði þess að efla tilfinningagreind