Í Fréttatímanum í dag (3. september 2016) skrifar Gunnar Smári Egilsson grein um uppsetningu söngleiksins Djöflaeyjunnar, sem byggð er á samnefndri bók Einars Kárasonar. Í hliðarramma er svo hugleiðing um framsetningu alkans í skáldskap, út frá persónu Bóbós í verkinu.
Í þessum hliðarramma birtist hefðbundin varnarræða fyrir sjúkdómskenninguna um fíkn. Gunnar Smári ber þar á borð þá túlkun að kenningar um tengsl áfalla og fíknar séu tilkomnar vegna þess að heilasjúkdómskenningin um fíkn sé ekki nógu rökrétt fyrir leikræna uppbyggingu og því hafi rithöfundar fundið upp á því að tengja áföll og þróun fíknar.
Ég er reyndar alveg sammála því að það vantar trúverðugleika og raunsæi í sjúkdómskenninguna um fíkn enda hafa rannsóknir síðastliðinna 20 ára á tengslum erfiðra upplifana og heilsufars sýnt fram á órjúfanleg tengsl þar á milli. Ása Guðmundsdóttir gerði t.d. rannsókn árið 2000 þar sem fram kom að 50% kvenna sem þá voru í fíknimeðferð á Vífilsstöðum höfðu verið beittar kynferðisofbeldi í æsku. Hins vegar hafa milljarðarnir sem hafa verið lagðir í það á heimsvísu að finna alkagenið ekki skilað miklum árangri. Allen J. Frances, ritstjóri greiningarstaðalsins DSM 4 og höfundur bókarinnar Saving Normal, benti t.d. á, á ráðstefnu Geðhjálpar í júní síðastliðnum, að skönnun á heila fólks með geðrænan vanda hafi ekki hjálpað einum einasta sjúklingi hingað til, en litríkar myndir af heilanum hafa verið mjög vinsælar á undanförnum árum til að selja hugmyndir um að geðrænn vandi, þar á meðal fíkn, sé aðallega líffræðilegur en ekki umhverfislegur.
Heilasjúkdómskenningin um fíkn á ekki uppruna í vísindasamfélaginu en er samofin áhrifum AA-samtakanna á fíkniiðnaðinn. Alkóhólismi, fíkn, er skilgreind sem sjúkdómur í höfuðriti samtakanna, AA-bókinni. AA-samtökin eru samtök sem byggja á trúarlegum hugmyndum, félagarnir eiga að treysta ósýnilegum æðri mætti.
Á íslenskum fjölmiðlum eru margir fánaberar heilasjúkdómskenningarinnar um fíkn sem duglegir eru að halda henni á lofti. Ekki bara í umfjöllum um fíkn. Hún sprettur upp í leikdómum, pólitískum skýringum og sem grundvallarhugmynd í skrifum þeirra sem hafa farið í gegnum meðferð hér á landi og tileinkað sér 12 spora nálgun AA-samtakanna á tilveruna. Svo virðist sem margir íslenskir fjölmiðlamenn, sem hafa tekið á sínum fíknivanda, hafi tileinkað sér það gagnrýnisleysi sem sumir kjósa að leggja áherslu á í 12 spora kerfinu, sérstaklega þar sem það hefur verið stofnanavætt. Þú átt að treysta æðri mætti, ekki efast heldur meðtaka hinn stóra sannleika án óþægilegra spurninga.
Við vitum svo öll hver er æðsti mátturinn í íslenska fíknimeðferðarkerfinu.
Árið 2013 skoðaði ég ritstjórnir stærstu fjölmiðla landsins og í þeim öllum voru blaðamenn sem einnig höfðu setið í stjórn SÁÁ, nema hjá RÚV (eftir því sem ég komst næst), en Páll Magnússon útvarpsstjóri hafði setið í stjórninni. Mér sýnist að fyrir SÁÁ, sem hefur verulega fjárhagslega hagsmuni af góðri stöðu heilasjúkdómskenningarinnar, hafi staðan heldur batnað síðan þá. Gunnar Smári, fyrrverandi framkvæmdastjóri SÁÁ, starfar nú sem blaðamaður á Fréttatímanum og er vinsæll greinandi og gestur á öðrum fjölmiðlum. Sigurjón M. Egilsson og Páll Magnússon eru með regluleg viðtöl og þætti þar sem rætt er við haghafa heilasjúkdómskenningarinnar um fíkn án þess að spyrja nokkurn tíma gagnrýnna spurninga, á fjölmiðli sínum Hringbraut.
Ég efast ekkert um að meðferðin hjá SÁÁ hafi reynst þessum mönnum vel og hún virðist jafnvel henta fjölmiðlamönnum og stjórnmálamönnum mjög vel, sérstaklega þeim sem eru karlkyns. Það breytir því ekki að hún er ekki hafin yfir gagnrýni og sú nálgun að alkóhólismi sé ólæknandi heilasjúkdómur hefur reynst mörgum, ekki síst konum, lífshættuleg.
Það er óheppilegt að umræða um fíknimeðferð sé í höndunum á varðhundum staðnaðs kerfis sem drifið er af hagsmunum rekstraraðila á meðan stór hluti fólks sem þarf á fíknimeðferð að halda líður fyrir það að fá ekki einstaklingsmiðaða meðferð sem byggð er á nýjustu þekkingu en ekki kreddukenndri trú á heilasjúkdómskenninguna.
Ég kann þessum varðhundum kerfisins litlar þakkir fyrir og spyr mig hvort það myndi ekki samræmast siðareglum blaðamanna betur ef aðrir en þeir sem uppfullir eru af þakklæti til hins æðsta máttar meðferðarkerfissins sæju um umfjöllun um það?