Sæunn Kjartansdóttir

Höfundur: Sæunn Kjartansdóttir

Allar færslur höfundar

Enn ein skýrslan og hvað svo?

Þakka ber fyrir skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga þó að svört sé. Niðurstaða hennar staðfestir það sem óteljandi skýrslur hafa sýnt undanfarin ár og áratugi; Stjórnvöld hafa ekki staðið við skyldur sínar gagnvart börnum á öllum aldri eins og íslensk lög og alþjóðlegir samningar kveða á um. Mörg hundruð börn bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir nauðsynlegri þjónustu og það þykir orðið venjulegt.

Stefnu- og ráðaleysi stjórnvalda í geðheilbrigðismálum barna varð til þess að árið 2011 tók fagfólk í geðheilbrigðisþjónustu frumkvæði að því að stofna Miðstöð foreldra og barna. Miðstöðin sinnir ítarþjónustu fyrir foreldra og ungbörn með geðheilsuvanda á meðgöngu og fyrsta ári barnsins en hefur árlega þurft að berjast fyrir tilveru sinni. Nú hefur myndast þar biðlisti sem aldrei skyldi vera því að ungbörn geta ekki beðið. Það eiga smábörn ekki heldur að gera en þau komast ekki einu sinni á biðlistana illræmdu. Hvernig stendur á því? Í okkar rómaða velferðarkerfi er sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn á aldrinum eins til fimm ára einfaldlega ekki til. Smábörn sem þurfa slíka aðstoð mega bíða þangað til þau komast á biðlista BUGL sem er um það leyti sem þau byrja í grunnskóla.

Ef einhverjir halda að vanlíðan og streita ungra barna sé léttvæg vil ég benda á The ACE Study (Adverse Childhood Experiences/erfið reynsla í barnæsku). Rannsóknin hefur verið í gangi frá árinu 1995 með 17.000 þátttakendum og um hana hafa verið skrifaðir tugir vísindagreina. Í henni kemur fram að áföll og streita í æsku auki verulega líkur á heilsubresti á fullorðinsárum. Því fleiri áföll þeim mun meiri áhætta. Sem dæmi um áföll sem voru greind í rannsókninni var að verða fyrir ofbeldi (andlegu/líkamlegu/kynferðislegu), vanræksla (líkamleg/tilfinningaleg), heimilisofbeldi, ofneysla áfengis/fíkniefna á heimili, geðröskun fjölskyldumeðlims og skilnaður foreldra.

Stjórnvöld bretti upp ermar
Kvíði og streita barna er alvarlegri en í fljótu bragði kann að virðast. Barnsheilinn er viðkvæmur fyrir áhrifum streituhormóna sem geta hamlað eðlilegum þroska hans og dregið úr félagslegri, hugrænni og tilfinningalegri getu barnsins. Streitan getur valdið beinum líffræðilegum breytingum en einnig leitt til þess að barnið/unglingurinn tileinkar sér óheilbrigð bjargráð, til dæmis átröskun, reykingar, ótímabært kynlíf eða áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Því fleiri áföll í barnæsku því meiri líkur eru á margvíslegum sjúkdómum á fullorðinsaldri, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, þunglyndi, ofneyslu áfengis og/eða fíkniefna, ofbeldissamböndum, sjálfsvígstilraunum og ótímabærum dauðdaga.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er í takt við niðurstöður ACE-rannsóknarinnar en þar segir: „Ef ekki er tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukast til muna líkur þess að þungbærar og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram.“ Það þarf ekki mikla reiknifærni til að átta sig á hversu dýrt þetta er samfélaginu en málið snýst ekki eingöngu um peninga. Siðferðilega er óverjandi að segja við börn og unglinga með geðheilsuvanda að við séum of blönk og upptekin til að sinna þeim og þau verði að bíða. Reynslan, rannsóknirnar, skýrslurnar og ályktanirnar eru fyrir löngu búnar að sýna okkur hversu skaðlegt, óskynsamlegt og dýrt það er. Nú verða stjórnvöld að bretta upp ermar og axla ábyrgð, ekki með fleiri orðum, heldur alvöru úrbótum í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn á öllum aldri.

Enn ein skýrslan og hvað svo?