Það var með mikilli gleði og þakklæti sem Miðstöð foreldra og barna þáði fjölskylduviðurkenningu frá Sos Barnaþorpum sem afhent var í fyrsta sinn 20. nóvember sl. á alþjóðadegi barna. Margir munu ætla að við hér í velmeguninni á Íslandi skörum fram úr þeim löndum sem Sos barnaþopin styðja þar sem fólk býr við stríð, náttúrúhamfarir og fátækt. Og vissulega gerum við það að mjög mörgu leyti. Ungbarnadauði á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í heiminum, öll börn ganga í skóla og margt fleira mætti nefna. En það er að minnsta kosti eitt sem við getum lært af Sos barnaþorpum; Það er áherslan á mikilvægi tengsla. Það var áhugavert að lesa skýrslu Sos frá 2007 þar sem fjallað er um áhrif tengsla á framtíðarheilbrigði barna. Á síðustu árum hafa komið fram hundruð rannsókna sem sýna hversu alvarleg áhrif það hefur á þroska og mótun barnsheilans ef foreldrar eru ekki í stakk búnir til að tengjast barni með því að sinna því á viðeigandi hátt. Þessa þekkingu voru Sos barnaþorpin farin að tileinka sér með því að tryggja munaðarlausum börnum tengsl við fósturforeldra á meðan við á vesturlöndum vorum upptekin við að þróa sjúkdómsgreiningar fyrir börn í tengslavanda með tilheyrandi lyfjagjöf. Það er ekki nóg með að íslensk börn slái met í neyslu geðlyfja vegna vanlíðunar sem til dæmis er kölluð mótþróaþrjóskuröskun eða athyglisbrestur heldur herma nýjustu fréttir að sprenging hafi átt sér stað hér á landi í ávísun svefnlyfja á börn. Þegar kemur að vanlíðan barna jafnt sem fullorðinna virðist trú okkar á mátt efnafræðinnar engin takmörk sett.
Þetta má segja að hafi verið einn helsti hvati þess að við stofnuðum Miðstöð foreldra og barna árið 2008. Út frá sjónarhorni tengsla fannst okkur foreldrar og ungbörn vera munaðarlaus innan velferðarkerfisins. Á þessum tíma fengu foreldrar sem glímdu við vanlíðan tengda meðgöngu eða umönnun ungbarns nánast eingöngu hjálp í formi lyfjagjafar. Það eru auðvitað engar fréttir að ungbörn þurfi á foreldrum að halda, enda er mannsbarnið mest ósjálfbjarga lífvera á jörðinni. En það er ekki nóg fyrir barn að eiga foreldri, foreldrið þarf að vera í stakk búið til að sinna því og setja þarfir þess í forgang. Og til þess geta foreldrar þurft margskonar hjálp. Þeir einir eru þess ekki umkomnir að koma barni til manns og þess vegna er talað um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Foreldrar hafa hins vegar mikla sérstöðu í þorpinu því það eru þeir sem mynda fyrstu og mikilvægustu tengslin við barnið. Þess vegna er grundvallaratriði að hjálpa foreldrum sem líður illa og oft þarf ekki mikið til. Stuðningur við foreldra ungbarna er ekki eingöngu mannúðlegur heldur er búið að sýna fram á hversu gríðarlega kostnaðarsamt það er fyrir samfélagið að snúa blinda auganu að ungbarnafjölskyldum í vanda.
Það var skemmtileg tilviljun og óvænt tenging við verkefni Sos barnaþorpa að í síðustu viku var ég á Indlandi. Aðdragandinn var sá að elsta systir mín hefur haft þar vetursetu í nokkur ár og hún sagði við mig: “Sæunn þú verður að koma hingað og sjá börnin.” Svo fyrir rúmum hálfum mánuði kom að Indlandsför í fylgd tveggja annarra systra. Ég tók fljótt eftir því sem elsta systir mín hafði talað um. Í sárri fátækt og afar fábreyttu lífi, á okkar mælikvarða, var sláandi í hve góðu jafnvægi börn virtust vera. Athygli mín beindist einkum að yngstu börnunum sem ég sá aldrei öðru vísi en í fangi fullorðinnar mannskju, róleg og brosmild. Okkur var boðið heim til vestrænnar konu sem býr í næsta húsi við indverska fjölskyldu þar sem eru 7 börn á heimilinu, það yngsta er rúmlega ársgamall drengur. Systir mín hefur oft fært systkinunum eitthvað smálegt en tók eftir því að þegar hún gaf 8 ára gömlum dreng leikfangabíl að hann horfði hissa á gripinn og vissi ekki almennilega hvað hann átti að gera við þetta litríka plast sem leit út eins og lítill bíll, enda eiga indversk börn á þessu svæði engin leikföng eins og við þekkjum þau. Samt sem áður keyptum við eitthvað smávegis og þeim ársgamla færðum við bangsa. Þar sem við sátum úti í garði og drukkum te komu börnin að kíkja á okkur. Sá ársgamli var í fangi 14 ára systur sinnar og tók ekki augun af okkur. Eftir að við höfðum spjallað við þau færðum við honum gjöfina. Sá litli leit á bangsann, tók hann í fangið og hélt á bangsanum eins og systir hans hélt á honum. Að öðru leyti sýndi hann bangsanum engan áhuga. Sallarólegur sat hann áfram í fangi systur sinnar, með bangsann í fanginu, en athyglin var öll á fólkinu í kringum hann sem hann sendi falleg bros þegar hann sá ástæðu til.
Ég held ekki að fátækt sé forsenda þess að við metum fólkið í kringum okkur og gefum þörf barna fyrir nálægð við aðra manneskju vægi. Mér sýnist hins vegar að ofgnótt efnislegra gæða hafi tilhneigingu til að villa okkur sýn og færa okkur frá þeim einfalda sannleik að maður er manns gaman og að tengsl barna við foreldra, eða þá sem gegna hlutverki þeirra, eru þeim jafn lífsnauðsynleg og hreint loft og holl fæða. Þar finn ég mikinn samhljóm á milli Sos barnaþorpa og Miðstöðvar foreldra og barna.