Höfundur: Sæunn Kjartansdóttir

Allar færslur höfundar

Munar okkur um 7 milljarða á ári?

 

Í lok ágúst fékk Miðstöð foreldra og barna til sín góðan gest frá Bretlandi. Dr. Amanda Jones er sérfræðingur í fjölskyldumeðferð og var í ráðgjafahópi bresku ríkisstjórnarinnar við innleiðslu úrræða sem þjóna foreldrum í barneignaferli með alvarlegan geðheilsuvanda. Hún hefur komið hingað þrisvar áður og haldið námskeið fyrir fagfólk á vegum miðstöðvarinnar auk þess sem hún handleiðir starfsfólk þar reglulega á Skype. Í þetta sinn bauð miðstöðin heilbrigðis- og félagsmálaráðherra á fund með Amöndu ásamt talsmönnum barna á Alþingi og fulltrúum frá Barnaheill, Umboðsmanni barna, Landlækni, Unicef, Velferðarsviði Reykjavíkur, Barnavernd Reykjavíkur, Geðverndarfélagi Íslands, Barnaspítala Hringsins, SÍBS og Heilsugæslu höfuðborgarinnar. Alls mættu 14 gestir og hlýddu á erindi hennar.

Í máli Amöndu kom skýrt fram hversu miklu fjármagni við sóum með því að fjárfesta ekki í úrræðum fyrir fjölskyldur og ungbörn sem eiga í tilfinningalegum vanda á meðgöngu og fyrstu tvö ár barnsins. Í skýrslu sem London School of Economics gaf út í október 2014, The Costs of Perinatal Mental Health Problems, (http://everyonesbusiness.org.uk/wp-content/uploads/2014/12/Embargoed-20th-Oct-Final-Economic-Report-costs-of-perinatal-mental-health-problems.pdf ) er að finna sláandi tölur. Þar hefur verið reiknað út að þegar upp er staðið kosti aðgerðaleysi Breta 8.1 milljarð sterlingspunda á ári fyrir hvern árgang sem ekki fær viðeigandi meðferð. Af þessari upphæð eru 72% kostnaðarins vegna barnsins og fellur hann til í heilbrigðis- félags- og menntakerfinu. Sem dæmi má nefna hegðunarvanda barna og unglinga, kvíða og átraskanir, námserfiðleika, áfengis- og vímuefnanotkun, geðraskanir, líkamlega sjúkdóma og afbrot. Séu þessar tölur yfirfærðar á Ísland reiknast kostnaðurinn á 7 milljarða króna fyrir hvern árgang sem ekki fær viðeigandi meðferð á meðgöngu og fyrstu 2 ár barnsins.

En hvað myndi kosta að sinna þessum hópi á fullnægjandi hátt? Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu þyrftu Íslendingar að verja um 230 milljónum króna á ári í sérhæfða meðferð fyrir ungbörn og foreldra þeirra. Sumar fjölskyldur þurfa aðeins örfá viðtöl en þær sem glíma við alvarlegan vanda þurfa lengri meðferð. Og hvernig er staðið að þessum málum á Íslandi í dag? Auk FMB teymis Landspítala er Miðstöð foreldra og barna eina úrræðið sem sinnir þessum markhópi. Hvorug starfsemin er trygg. Á LSH er ekki sérstök fjárveiting til teymisins og Miðstöð foreldra og barna fær 20 milljónir kr. á ári. Sú fjárveiting er ekki á föstum fjárlögum heldur hefur ákvörðun um starfsemi miðstöðvarinnar verið tekin á íslenska mátann: Frá einu ári til þess næsta – á elleftu stundu.

Ef barn fæðist fyrir tímann eða líkamleg heilsa þess er í hættu er engu til sparað enda erum við erum stolt yfir því að á Íslandi er mæðra-og ungbarnavernd eins og hún gerist best í heiminum. Þegar hins vegar öryggi og heilsu ungbarns er ógnað vegna geðheilsuvanda foreldra bjóðum við upp á biðlista. Það er sorgleg staðreynd að bresk stjórnvöld tóku ekki við sér fyrr en eftir dauðsfall tveggja mæðra og jafnmargra ungbarna. Þá loks tryggðu þau fjármagn til sérhæfðrar meðferðar ungbarnafjölskyldna. Eftir hverju skyldum við vera að bíða?

Munar okkur um 7 milljarða á ári?