Höfundur: Eydís K Sveinbjarnardóttir

Allar færslur höfundar

Leitin að fjársjóðum í geðheilbrigðismál á Íslandi

Á Íslandi er til fjármagn.  Það hefur verið til fjármagn í að lækka skatt á hátekjufólk og stórlækka veiðileyfagjöldin en á sama tíma hefur ekki náðst pólitísk samstaða um að að setja nægjanlegt viðbótarfjármagn í heilbrigðismál er lúta að rekstri sjúkrahúsa eða heilsugæslu.  Reyndar má það ekki gleymast að undanfarin ár hefur töluvert fjármagn farið stjórnlaust til sérfræðilækna sem reka einkastofur.  Það  má spyrja sig hvort það sé rétt forgangsröðun þegar grunnheilbrigðisþjónusta landsmanna hefur verið svelt á sama tíma, og enginn pólitískur vilji virðist vera til að breyta þeirri forgangsröðun. Þannig geta Íslendingar farið og látið hjartalækni mæla blóðþrýsting og fengið mýkjandi krem hjá húðlækni. Kannski besta heilbrigðisþjónusta í heimi en sennilega ekki sú hagkvæmasta. Við þessa forgangsröðun hafa málefni eins og forvarnir og gagnreyndar samtalsmeðferðir í geðheilbrigðisþjónustu alls ekki átt upp á pallborðið – en geðlyfjaát ungra jafnt sem aldraðra landsmanna slegið öll met.

Á Íslandi er til takmarkað fjármagn. Geðheilbrigðisstefna ásamt aðgerðum í geðheilbrigðismálum var samþykkt á Alþingi Íslendinga í apríl 2016.  Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þáverandi formaður velferðarnefndar og Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra  eiga þakkir skildar fyrir að beita sér í þessu mikilvæga máli. Aðgerðirnar sem eru allnokkrar eru með vel skilgreindum markmiðum þar sem fyrirhugað var að fjármagna sérhvert verkefni aðgerðarinnar.  Eitt af aðgerðum geðheilbrigðisstefnunnar er verkefni sem snýr að auknum stuðningi við börn sem eiga foreldra með geðraskanir. Markmiðið er að gagnreyndur stuðningur sem kallast Tölum um börnin/Fjölskyldubrúin verði innleiddur á 70% heilsugæslustöðva og verði lokið á árinu 2018. Ef undirrituð er læs á fjárlögin hafa tvö verkefni geðheilbrigðisstefnunnar náð fjárveitingum ársins 2017 þ.e. þjónusta sálfræðinga standi sjúklingum heilsugæslunnar til boða og lokið verði við verkefnið að koma á fót þverfaglegum geðheilsuteymum.

Á Íslandi er ekki til fjármagn.  Árið 2005 fór undirrituð ásamt tveimur fagmönnum frá geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúsi á norrænan fund til Finnlands um málefni barna sem ættu foreldra með alvarlegan geðsjúkdóm. Á Íslandi hefur verið lítil sem engin umræða um þetta málefni – hvað þá aðgerðir.  Ríkisstjórnir allra Norðurlandanna voru á árabilinu 2005-2010 að setja umtalsvert fjármagn i þennan málaflokk sérstaklega í innleiðingu nýrra aðferða í fullorðins geðheilbrigðisþjónustu, menntun og fræðslu til geðheilbrigðisstarfsfólks og vísindarannsóknir á árangri innleiðingu nýrra aðferða (sjá ítarefni sem fylgir bloggi).

Undirrituð hefur hitt alla heilbrigðisráðherra á Íslandi frá 2005 nema Álfheiði Ingadóttur frá Vinstri grænum og rætt mikilvægi þess að sinna þessum börnum sérstaklega til að draga úr hættu á að geðheilbrigðisvandi flytjist á milli kynslóða. Ráðherrarnir hafa allir sýnt þessu máli mikinn skilning en ekkert hefur verið um formleg verkefni eða aðgerðir (hvorki í efnahagslegri þenslu eða kreppu) eins og nágrannalöndin okkar hafa lagt áherslu á í meira en áratug.  Mig langar að nefna þessa ráðherra sem ég hef hitt:  Jón Kristjánsson, Framsóknarflokki; Siv Friðleifsdóttur, Framsóknarflokki; Guðlaug Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki; Guðbjart Hannesson, Samfylkingu og Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki.

Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2017 mega börn og ungmenni á Íslandi sem eiga foreldra með geðvanda og þarfnast gagnreynds stuðnings enn bíða.

 

Ítarefni:

  • Eydís K. Sveinbjarnardóttir, Sigurður Rafn A. Levy &Vilborg G. Guðnadóttir (2008). Fjölskyldubrúin – fjölskyldustuðningur með börnin í brennidepli. Geðvernd, 37, 6-11
  • Kristín Rún Friðriksdóttir, Ragnheiður Halldórsdóttir, Eydís K. Sveinbjarnardóttir, & Páll Biering (2012). Börn sem eiga foreldra með geðsjúkdóma. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 3 (88), 6-11
  • Lauritzen, C. (2014). The importance of intervening in adult mental health services when patients are parents. Journal of Hospital Administration, 3(6), 56-65. DOI: 10.5430/jha.v3n6p56
  • Reedtz, C., Lauritzen, C., & van Doesum, K. T. M. (2012). Evaluating workforce developments to support children of mentally ill parents: implementing new interventions in the adult mental healthcare in Northern Norway. BMJ Open 2012;2:e000709 doi:10.1136/bmjopen-2011-000709
  • Styrmir Gunnarsson (2011). Ómunatíð – saga um geðsýki. Reykjavík: Veröld
Leitin að fjársjóðum í geðheilbrigðismál á Íslandi