Höfundur: Styrmir Gunnarsson

Stúdent MR 1958. Lagapróf frá Háskóla Íslands 1965. Blaðamaður á Morgunblaðinu 1965-1971. Aðstoðarritstjóri 1971-1972. Ritstjóri 1972-2008.

Vefsíða Allar færslur höfundar

Hugsað upphátt

Á þessu ári hef ég við og við átt erindi á geðdeild Landspítalans, sem ég þekkti lítið fyrir en man eftir baráttu fyrir því að byggingin yrði reist. Þessar heimsóknir hafa orðið mér umhugsunarefni.

Mín tilfinning er sú, að umhverfi þeirra, sem eiga við geðsýki að stríða skipti máli. Og nú er það svo að þótt fólkið sjálft hafi auðvitað mest áhrif á umhverfi með nærveru sinni kemur húsnæði þar líka við sögu.

Geðdeildin á Borgarspítalanum var að sjálfsögðu í hefðbundnu spítalaumhverfi en bar engu að síður hlýlegt yfirbragð.

Geðdeildarbyggingin á Landspítalalóðinni er að mínu mati þunglamaleg og drungaleg og ber þess ekki merki að hún hafi verið hönnuð fyrir fólk, sem á um sárt að binda vegna röskunar á geði, nema síður sé, en endurspeglar vafalaust viðhorf þeirra tíma.

Vandamál Kleppsspítala var alls ekki umhverfi spítalans og jafnvel heldur ekki byggingin sjálf en hins vegar tengdust fordómar fólks gagnvart geðsjúkum fram eftir 20. öldinni (“hann á heima á Kleppi”, “hann er kleppstækur” o.sv. frv.) þeim stað á þann veg að það orðspor hverfur sjálfsagt aldrei.

Það er umhugsunarefni – og þess vegna er hugsað upphátt um þetta mál hér – hvort ekki er tímabært að fara að ræða og huga að nýrri byggingu fyrir geðdeild Landspítalans, sem taki meira tillit til þarfa hinna sjúku fyrir hlýlegt og notalegt umhverfi, þar sem jafnframt sé hægt að njóta náttúru og útivistar í ríkara mæli en hægt er með núverandi staðsetningu.

Vífilstaðir bjóða upp á slíka aðstöðu svo að dæmi sé nefnt.

Styrmir Gunnarsson

 

 

 

Hugsað upphátt