Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi menntunar fyrir einstaklinga jafnt sem samfélög. Venjan er að fólk sé í námi fram á þrítugsaldurinn og flestum finnst jafn eðlilegt að sækja símenntun og að endurnýja bílinn. Við skilgreinum leikskóla sem fyrsta skólastigið og margir telja æskilegt að börn hefji þar nám strax og þau verða ársgömul. En hvers konar nám hentar svo ungum börnum?
Rétt er að ítreka að fyrstu tvö árin hafa börn afar takmarkaðar forsendur fyrir hugrænu og félagslegu námi. Hvort tveggja krefst þroska vitsmunaheilans sem er í mótun á þessum árum en þroski hans veltur mjög á umhverfinu. Bestu aðstæður fyrir mótun vitsmunaheilans felast í að 1) að börn eigi örugg tengsl við umönnunaraðila, foreldra og aðra þá sem annast þau daglega og 2) að þeim sé hlíft við óhóflegri streitu. Það vill svo vel til að þetta tvennt helst í hendur því að örugg tengsl eru besta streituvörn barna. Þau einkennast af því að barn á “örugga höfn” hjá fullorðinni manneskju sem sinnir því jafnt og þétt þegar það þarf á að halda og gleðst yfir tilveru þess. Mjög margt er til þess fallið að valda ungum börnum streitu, allt frá framandi hljóðum yfir í vanrækslu. Streita veldur framleiðslu streituhormónsins kortísóls en þegar barni er sinnt af næmni tvístrast kortísólið. Sé þetta reglan lærir barnið að vanlíðan er ekki hættuleg, hana er hægt að bæta, og það lærir að bera sig eftir hjálp. Sé barni hins vegar ekki sinnt veldur streitan innspýtingu kortísóls. Verði streitan viðvarandi verður kortísólframleiðslan keyrt úr hófi og þá reynir barnið á vanmáttugan hátt að ráða bug á vanlíðan sinni með aðferðum sem oft skapa frekari vanda, t.d. lokar það á umhverfið eða missir stjórn á sér. Ofgnótt kortísóls dregur úr vexti heilans, sérstaklega þeim svæðum sem hafa með nám og minni að gera, og hefur áhrif á ónæmiskerfið með því að draga úr mótstöðu gegn sýkingum og heilsufarvandamálum, líkamlegum ekki síður en andlegum.
Afkvæmin okkar eru ekkert öðruvísi en önnur spendýr: Þau þarfnast nálægðar við þá sem veita þeim öryggi. Það öryggi geta þeir einir veitt sem þekkja börnin vel, hafa skilning á viðkvæmni þeirra og getu til að mæta þörfum þeirra jafnt og þétt. Mannabörn eru hins vegar ólík öðrum spendýrum að því leyti að þau eru meira ósjálfbjarga, seinni til, háðari umönnun og viðkvæmari. Áhersla á félagslega hegðun og aðlögun að hópi er fullkomlega ótímabær fyrir börn yngri en tveggja ára. Þvert á móti er mikilvægasta hlutverk þeirra sem annast börn í fjarveru foreldranna fyrstu árin að veita þeim öryggi og athygli. Hvernig gera þeir það?
- Umönnunaraðilar þurfa að bregðast þarf fljótt við vanlíðan barna og aldrei gera lítið úr henni. Stundum þurfa þau að koma í fangið því að ró fullorðinnar mannsekju smitast yfir á barnið með hjartslætti hennar og andardrætti.
- Jafnvel þótt það séu smámunir sem valda uppnámi þarf að sýna barninu samkennd og setja orð á líðan þess. Veita blíðlega snertingu, tala rólega og horfa framan í barnið.
- Þegar börn kvarta og klaga eru þau að æfa sig í að tjá óánægju. Þess vegna þarf að hlusta og sýna skilning, þó að maður viti að hlutirnir séu flóknari.
- Oft þarf að dreifa athygli barna þegar þau eru í uppnámi en áður en það er gert þarf að hjálpa þeim út úr vanlíðaninni.
- Börn þurfa að fá að verða háð foreldrum, fjölskyldumeðlimum og ákveðnum starfsmönnum og mega sakna þeirra þegar þeir eru fjarri.
- Fyrirsjáanleiki, endurtekning og rútína hjálpa börnum að sjá fyrir hvað gerist næst sem gefur þeim tilfinningu fyrir að hafa einhverja stjórn.
- Setja þarf mörk með því að senda skýr skilaboð, æsingalaust.
- Aldrei má hunsa börn í vanlíðan, beita hótunum eða refsingum eins og einveru. Þvert á móti þarf að hugga þau til að vinna gegn streitu og koma líkama þeirra í jafnvægi á ný.
- Ung börn þurfa vissulega örvun en ekki er síður mikilvægt að sá fullorðni setjist í farþegasætið, fylgi frumkvæði barnsins og sé einfaldlega til staðar.
Hvað kennir þetta börnum? Þau læra að þó að lífið sé stundum erfitt sé hjálpar að vænta. Þau læra að þekkja tilfinningar sínar og bregðast við þeim eins og aðrir hafa gert. Þau læra að setja sig í spor annarra sem eykur líkur á að þau velji sér vini og maka með sömu hæfni. Barn sem býr við slíkar aðstæður heima og í leikskóla finnur að það skiptir máli. Það upplifir öryggi sem er nauðsynleg forsenda þess að það geti gleymt sér í leik, námi og starfi þegar það er fimm, fimmtán og fimmtíu ára.
Ítarefni:
Gerhardt Sue, Why Love Matters. How Affection Shapes a Baby’s Brain. London, 2004.
Holmes, Jeremy, John Bowlby and Attachment Theory. Sussex, 1993.
Music, Graham, Nurturing Natures. Attachment and Children’s Emotional, Sociocultural and Brain Development. Sussex, 2011.
Music, Graham, Nurturing Children: From Trauma to Growth Using Attachment Theory, Psychoanalysis and Neurobiology. London, 2019.
Solms, Mark og Turnbull, Oliver, The Brain and the Inner World. An introduction to the neuroscience of subjective experience. London, 2002.
Sæunn Kjartansdóttir, Árin sem enginn man. Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna. Mál og menning, 2009.