Áhrif skaðlegrar reynslu í brensku – fyrirlestur

Geðverndarfélag Íslands vill vekja athygli á áhugaverðum fyrirlestri miðvikudaginn 18. janúar klukkan 16.20 – 18.00 um áhrif skaðlegrar reynslu í bernsku (The Repressed Role of Adverse Childhood Experiences in Adult Well-being, Disease, and Social Function). Erindið verður í Silfurbergi Hörpu og er öllum opið og aðgangur ókeypis.

Fyrirlesari er Dr. Vincent J. Felitti, Clinical Professor of Medicine, University of California at San Diego, Medicine, La Jolla, California, USA

Dr. Vincent Felitti er upphafsmaður ACE ( Adverse Childhood Experiences)rannsóknarinnar sem fyrst var gerð í Bandaríkjunum 1995-1997. ACE er umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á afleiðingum erfiðrar reynslu í bernsku og hefur hún verið endurtekin með stórum úrtökum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi, Kína og víðar. Rannsóknin sýnir að 10 algengustu erfiðleikar í bernsku eiga sér stað í nánum tengslum og oft innan veggja heimilisins. Sem dæmi um erfiðleika sem hafa skaðleg áhrif á þroska og heilsu einstaklingsins má nefna ofbeldi (andlegt, líkamlegt, kynferðislegt), vanrækslu (líkamlega, tilfinningalega), heimilisofbeldi, geðrænan sjúkdóm foreldris, áfengis-eða fíknivanda foreldris og foreldramissi. Hvert skilgreint atriði telur eitt stig.
Niðurstöður hennar sýna með óyggjandi hætti að slík reynsla í æsku eykur líkur á líkamlegum sjúkdómum á fullorðinsaldri ekki síður en geðrænum. Þetta hefur verið kallað hinn þögli faraldur.
ACE stigafjöldi hefur mikið forspárgildi um heilsufar á fullorðinsaldri og hefur verið líkt við Kólesterólgildi sem meta líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Ef barn upplifir 4 eða fleiri áföll aukast líkur marktækt á fullorðinsaldri á geðrænum vanda, áhættuhegðun, aukinni lyfjanotkun svo og líkamlegum sjúkdómum t.d. hjarta og æðasjúkdómum, krabbameini, langvinnum lungnasjúkdómum og ótímabærum dauða. Ef ACE stigafjöldi er 6 eða meira styttir það ævina um 20 ár.
https://www.cdc.gov/violenceprevention/acestudy/

Fyrirlestur Dr Felitti er einstakt tækifæri til að fræðast um þessa merkilegu rannsókn sem hefur staðið yfir sl. 20 ár. Á grundvelli hennar hafa verið birtar yfir 80 greinar um niðurstöðurnar.

Fyrirlesturinn verður tekinn upp og verður hægt að nálgast hér á síðu Geðverndarfélagsins.

Áhrif skaðlegrar reynslu í brensku – fyrirlestur