Fyrir Alþingi liggur frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof. Frumvarpið gerir ráð fyrir að fæðingarorlofið lengist úr 9 mánuðum í 12 og að foreldrar geti skipt því á milli sín þannig að annað skuli taka 6 mánuði og hitt 6. Foreldrar geti þó framselt einn mánuð til hins, þannig að annað taki 7 mánuði og hitt foreldrið 5.
Geðverndarfélag Íslands hefur gagnrýnt þennan ósveigjanleika og hefur lýst þeirri skoðun sinni að vegna hagsmuna barnsins eigi foreldrar að ráða því sjálfir hvernig þeir skipti þessum 12 mánuðum milli sín, þannig að það sé ávallt tryggt að barnið fái 12 mánuði. Fleiri hafa gagnrýnt þennan þátt frumvarpsins, nægir þar að nefna Landlæknisembættið, Ljósmæðrafélagið og Barnaheill.
Geðverndarfélagið er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að huga að geðrænu og tilfinningalegu heilbrigði barna, og tengslamyndun, sérstaklega á fyrstu tveimur árum í lífi þeirra. Sýnt hefur verið fram á að þessi fyrstu tvö ár eru mikilvæg og geta haft áhrif á hvort úr verði farsæl, heilbrigð manneskja eða unglingur og síðar fullorðinn einstaklingur með margháttaðan tilfinninga- og tengslavanda.
Geðverndarfélagið fékk Gallup til að kanna hug almennings til frumvarpsins. Spurt var:
“Finnst þér framsal eins mánaðar frá öðru foreldri til hins vera of skammur tími, hæfilegur tími eða of langur tími?”
63% eða næstum 2 af hverjum 3, fannst tíminn vera allt of skammur eða heldur of skammur.
Töluverður munur kom fram í svörum karla og kvenna, 71% kvenna fannst tíminn allt of skammur eða heldur of skammur, en 60% karla.
Minni munur var á svörum eftir tekjum eða menntun.
Gallup könnun fyrir Geðverndarfélagið 14 12 2020