Frá ritstjóra
Að þessu sinni er efni blaðsins fjölbreytt. Ánægjulegt er að þrjár af greinum
blaðsins byggja á tveimur glænýjum doktorsritgerðum og meistaraprófsritgerð.
Varla er hægt að ná lengra í gæðum og dýpt efnis sem kynnt er.
Fyrsta og önnur greinin fjalla um nauðung í geðlækningum. Mikilvægt efni
og flókið. Þar er greinilega þörf meiri rannsókna og ljóst að enginn mælir í raun
með þeim nema í ítrustu neyð. Ritstjóri taldi þörf á að kynna það efni vegna
breytinga á lögræðislögunum sem taka gildi við áramót. Þriðja greinin fjallar um
fíknivanda kvenna og þörf á fjölbreyttum meðferðarleiðum fyrir konur. Fjórða
greinin fjallar um gríðarlega mikilvægt verkefni sem er að koma fólki með alvarlega
geðsjúkdóma út á vinnumarkað og hvernig hægt er að gera það vel. Fimmta
greinin lýsir nýjungum í greiningu þunglyndis karla og sérstöðu einkenna þunglyndis
hjá körlum. Sjötta greinin lýsir góðum árangri ósérhæfðrar hugrænnar atferlismeðferðar
í hópi úti í samfélaginu.
Geðverndarfélag Íslands hefur alla tíð haft þá stefnu að fræða breiðan lesendahóp
um geðverndarmál. Í þetta sinn var fagfólk beðið um efni samkvæmt tillögu
ritstjóra. Allir lögðu sig fram og metnaður höfunda var til fyrirmyndar. Ég vil þakka
þeim fyrir störf sín sem unnin eru með öðrum föstum störfum án nokkurrar umbunar.
Einnig vil ég þakka ritrýnum en vegna reglna um slík störf er ekki hægt að
geta þeirra hér. Stjórn og starfsmönnum Geðverndarfélagsins vil ég sérstaklega
þakka en þeir hafa lagt á sig mikla vinnu.
Góð fræðsla og aukin þekking er grundvöllur framfara og umbóta fyrir geðsjúka
og aðstandendur þeirra. Góðar grunnrannsóknir eru hér lykilatriði.
Sigurður Páll Pálsson
ritstjóri Geðverndar