48. árgangur 2019

Frá ritstjóra

Aðdragandann að stofnun Geðverndarfélags Íslands (GÍ) má rekja til tillögu sem kom fram á 40 ára afmæli Læknafélags Reykjavíkur í nóvembermánuði árið 1949. Geðverndarfélagið var síðan stofnað formlega þann 17. janúar 1950. Næsta tölublað verður formlegt afmælistímarit
í tilefni af 70 ára afmæli GÍ. Ræða Gunnlaugar Thorlacius formanns GÍ á 70 ára afmælishátíð GÍ þann 23. janúar sl. er höfð með í þessu riti vegna þess hve 2019 árgangur Geðverndar lítur seint dagsins ljós.

GÍ hefur alltaf lagt áherslu á þá þætti geðheilbrigðisþjónustu þar sem hið opinbera, ríki og sveitarfélög, hafa ekki staðið sig sem skildi. Félagið lagði megináherslu um árabil á endurhæfingu og búsetuúrræði geðsjúkra. Þegar úr þeirri þjónustu var bætt og hún veitt af sveitarfélögum sneri félagið að aðhaldi í öðrum verkefnum innan geðheilbrigðisþjónustunnar. Þar ber helst að nefna forvarnir og snemmtæka íhlutun í velferðar- og geðheilbrigðisþjónustu. Bæta þarf þjónustu og rannsóknir á þessu sviði á næstu árum.

Viðtölin í tímaritinu eru við Hazel Douglas, stofnanda Solihull aðferðarinnar og Önnu Guðríði Gunnarsdóttur, sérfræðing í heilsugæsluhjúkrun við heilsugæsluna í Árborg. Í viðtölunum er fjallað um hvernig hægt er að búa börnum góða framtíð með því að huga vel að heilbrigði og vellíðan þeirra frá getnaði, góðri tengslamyndun við foreldra og tilfinningaheilbrigði. En þetta er nýjasta verkefni GÍ. Bæði Hazel og Anna Guðríður héldu erindi á hátíðarfundi í tilefni 70 ára afmælis félagsins sem tengdust Solihull verkefninu (sjá nánar í fréttum af starfi félagsins). Mjög góður rómur var gerður að erindunum. Hátíðarfundurinn var haldinn í sal Íslenskrar erfðagreiningar og kann félagið ÍE bestu þakkir fyrir.


Ritstjóri kallaði eftir greinum í Geðvernd 2019 um áföll í æsku og afleiðingar þeirra. Anna María Jónsdóttir, geðlæknir, ásamt Sólrúnu Erlingsdóttur, BS í sálfræði, svöruðu kallinu. Grein þeirra ber heitið „Lengi býr að fyrstu gerð – Áhrif áfalla, streitu og erfiðrar reynslu í æsku.” Þar er fjallað um hversu mikla streitu barn upplifir þegar það verður fyrir áfalli. Þær segja frá því hversu mikilvægt það er að innleiða aðferðir og aðlaga umhverfi til að draga úr streitu og álagi af völdum áfalla fyrir börn. Mikilvægt er að huga að því að byggja upp nauðsynlegan stuðning frá fullorðnum og vinna að því að streituvaldandi aðstæður séu
aðeins tímabundnar. Þau skilyrði geta komið í veg fyrir skaðleg áhrif sem áföll kunna að hafa og geta ýtt þess í stað undir jákvæð bjargráð hjá barninu.

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur segir frá helstu niðurstöðum doktorsverkefnis í greininni „Áhrif streitu og áfalla á sjálfsvígshegðun og sjálfsvíg” Hildur Guðný brautskráðist með doktorspróf í lýðheilsuvísindum frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2019. Niðurstöður doktorsrannsóknar hennar styðja fyrri rannsóknir sem sýnt
hafa að áföll geti aukið hættu á sjálfsvígshegðun – og að áhrifin geti verið sterkari fyrir karla en konur. Það sem kemur kannski á óvart er að í kjölfar íslenska efnahagshrunsins 2008 þá jókst ekki heildartíðni sjálfsskaða, sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga skv. niðurstöðum doktorsverkefnis
Hildar Guðnýjar eins og margir mundu halda. Skýringa má leita í samfélagslegum þáttum sem virkjuðust eftir hrunið sem virðast hafa verið verndandi í tengslum við sjálfsvígshegðun og sjálfsvíg. Einnig gefa niðurstöðurnar til kynna að með batnandi efnahag geti hætta á sjálfsskaða, sjálfsvígstilraunum og sjálfsvígum aukist, sérstaklega meðal karla. Mikilvægt er að taka tillit til gagnreyndrar þekkingar þegar sjálfsvígsforvarnir eru skipulagðar en Hildur Guðný er einmitt verkefnisstjóri sjálfsvígsforvarna hjá Embætti Landlæknis.

„Annað áfall ofan á hitt“ Reynsla íslenskra kvenna af því að kæra nauðgun er grein eftir Karen Birnu Þorvaldsdóttur, doktorsnemanda við HA og Sigrúnu Sigurðardóttur, hjúkrunarfræðing og dósent við HA. Greinin er unnin úr meistaraverkefni Karenar Birnu við framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs HA.  Meginniðurstaða meistararannsóknar hennar er að konurnar upplifðu það sem annað áfall að kæra nauðgunina þ.e. þær lýsa kæruferlinu í kjölfar nauðgunarinnar sem öðru áfalli. Það er áfellisdómur yfir  réttarvörslukerfinu á Íslandi. Konurnar lýsa streituvaldandi og niðurbrjótandi reynslu í samskiptum við það að sækja rétt sinn í kjölfar ofbeldisins sem nauðgun er.  Mikilvægt er að innleiða áfallamiðaða þjónustu fyrir brotaþola innan réttarvörslukerfisins, sem fyrst, ásamt því að efla samstarf við heilbrigðiskerfið.

Jón Snorrason sérfræðingur í geðhjúkrun á geðsviði LSH skrifar greinina  „Æðruleysi – viðbrögð sjúklinga við þvingunaraðgerðum.“ Hann kannaði viðhorf sjúklinga á geðdeild Landspítala sem höfðu verið beittir þvingunaraðgerðum.  Þeir létu sig mest varða nauðungarvistunina sem þeir voru beittir. Athyglisverð var niðurstaðan um æðruleysið sem kom fram í viðtölum Jóns við þennan sjúklingahóp – þrátt fyrir að þeir töldu sig ekki geta haft áhrif á eða breytt ójafnri stöðu sinni gagnvart ákvörðun um þvingunarmeðferð. Þessir sjúklingar tjáðu sig einnig um skort á trausti til lækna og að eina sem þeir gætu gert væri að sýna seiglu þar til dvalartíma lyki og þeir fengu aftur meiri stjórn á lífi sínu. Það er mikilvægt fyrir heilbrigðisstarfsfólk að fá innsýn í þankagang sjúklinga sem sæta nauðungarvistun þar sem sú þvingunaraðgerð sýnir sig vera mest íþyngjandi fyrir sjúklinga. Starfsfólk geðdeilda þarf að leita allra leiða að draga úr beitingu þvingunaraðgerða á geðdeildum.

Greinarnar í þessu tölublaði Geðverndar eru allar ritrýndar. Tveir ritrýnar fara yfir greinarnar og koma með athugasemdir um hvað betur má fara.  Ritrýnar Geðverndar í ár komu með ómetanlega rýni á greinarnar sem sannarlega bætti gæði þeirra.  Ritrýnum er þakkað þeirra framlag.

Afmælisblað Geðverndar 2020 er þegar í undirbúningi.  Ritstjóri kallar eftir efni sem snýr að fjölskyldum, meðferðarúrræðum sem snúa að fjölskyldum, fjölskyldumiðaðri þjónustu við fjölskyldur ásamt greinum sem fjalla um stöðu og fjölbreytileika fjölskyldunnar í íslensku samfélagi. Undirrituð hlakkar til að heyra frá ykkur lesendum Geðverndar.

Það hefur ætíð verið stefna Geðverndar að höfða til breiðs hóps áhugafólks um geðheilbrigðismál. Ritstjóri þakkar höfundum þessa blaðs fyrir metnaðarfullar og fróðlegar greinar. Hann þakkar einnig stjórn, ritstjórn og  framkvæmdastjóra Geðverndarfélags Íslands fyrir samstarfið við útgáfu blaðsins.

Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir

ritstjóri Geðverndar

48. árgangur 2019