43. árgangur – 2014

Frá ritstjóra

Að þessu sinni er þema blaðsins fjölbreytt, þó er rauði þráðurinn tengdur samspili umhverfis við geðsjúkdóma.

Ritstjóri valdi alls ekki beint það efni en svo virðist vera nú að eftir áratuga áherslu á líffræði og erfðafræði hafi allar vísindagreinar áttað sig á því að félagslegir og sálfræðilegir þættir skipta einnig miklu máli við skilning á tilurð geðsjúkdóma og ekki síður hvernig meðhöndla eigi þá.

Fyrsta greinin fjallar um sálfélagslega líðan framhaldsskólanema. Miðað við niðurstöður þessarar greinar er erfitt að skilja að hægt sé að stytta námstíma í framhaldsskólum í 3 ár. Grein tvö er gott yfirlit um bata og þróun þunglyndis hjá sjúklingum með alvarlegt þunglyndi. Í grein þrjú eru markmið og hlutverk batastefnunnar í geðheilbrigðisþjónustu ágætlega skilgreind og útskýrð. Fjórða greinin er lýsing á klínísku mælitæki (RAI) sem hægt er að nota til að meðal annars rannsaka samspil geðsjúkdóma og umhverfis. Fimmta greinin lýsir nýju rannsóknarverkefni sem á að meta þjónustu FMB teymis en þetta verkefni fékk rannsóknarstyrk frá rannsóknarsjóði Geðverndarfélagsins á árinu. Grein sjö er grein um kannabis. Aldrei verður of oft varað við þeim hrikalegu afleiðingum sem eiturlyfjaneysla hefur á miðtaugakerfið.

Geðverndarfélag Íslands hefur alla tíð haft þá stefnu að fræða breiðan lesendahóp um geðverndarmál. Í þetta sinn var fagfólk beðið um efni samkvæmt tillögu ritstjóra.

Allir lögðu sig fram og metnaður höfunda var til fyrirmyndar. Ég vil þakka þeim fyrir störf sín sem unnin eru með öðrum föstum störfum án nokkurrar umbunar. Einnig vil ég þakka ritrýnum en vegna reglna um slík störf er ekki hægt að geta þeirra hér. Stjórn og starfsmönnum Geðverndarfélagsins vil ég sérstaklega þakka en þeir hafa lagt á sig mikla vinnu.

Góð fræðsla og aukin þekking er grundvöllur framfara og umbóta fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra. Góðar grunnrannsóknir eru hér lykilatriði.

Sigurður Páll Pálsson
ritstjóri Geðverndar

 

Efnisyfirlit

  • Frá ritstjóra Bls. 5
  • Sigrún Harðardóttir, Halldór S. Guðmundsson og Atli Hafþórsson Sálfélagsleg líðan framhaldsskólanemenda Bls. 6
  • Snæbjörn Ómar Guðjónsson, Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir og Ragnheiður Harpa Arnardóttir Bati og þróun þunglyndis, kvíða og lífsgæða hjá sjúklingum með alvarlegt þunglyndi Bls. 11
  • Hjalti Einarsson, Baldur Heiðar Sigurðsson, Pétur Tyrfingsson og Jón Friðrik Sigurðsson Boðskapur og markmið batamiðaðrar geðheilbrigðisþjónustu Bls.16
  • Halldór Kolbeinsson, Rakel Valdimarsdóttir, Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir og Guðrún Blöndal Kynning á interRAI geðmati. Samspil sjúkdóma og umhverfis Bls. 22
  • Anna Rós Jóhannesdóttir og Gunnlaug Thorlacius Mat á þjónustu FMB teymis Bls. 26
  • Nanna Briem og Halldóra Jónsdóttir Kannabis Bls. 29
  • Frá stjórn Geðverndarfélags Íslands Bls. 32
43. árgangur – 2014