47. árgangur – 2018

Frá ritstjóra


Stefna íslenskra stjórnvalda í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var árið 2016 virðist vera að skila jákvæðum breytingum á verklagi í geðheilbrigðisþjónustu þar sem fjármagn fylgir verkefnum stefnunnar en betur má en duga skal í okkar velmegandi samfélagi. Ekki má gleyma því að almenningur vill setja geðheilbrigðismál í forgang sem og eðheilbrigðisstarfsmenn sem hafa bent í mörg ár á stefnuleysi stjórnvalda í málaflokknum, sérstakleg m.t.t. þess að hlúa með gagnreyndum aðferðum að geðheilsu barna, unglinga og fjölskyldna þeirra.

Það má alls ekki vanmeta að ein af stærstu áskorunum 21. aldarinnar eru geðheilbrigðismálin þar sem nauðsynlegt er í enn frekara mæli að beina sjónum að forvörnum og snemmtækri íhlutun. Það er stór áskorun fyrir samfélag okkar þegar rannsóknir sýna að um þriðjungur háskólanema, við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri, mælist með þunglyndi. Þau eru að glíma við andleg veikindi, sérstaklega kvíðaog
þunglyndisvanda. Opinber geðheilbrigðisþjónusta, innan heilsugæslu, þarf að geta boðið upp á viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp – þetta er kynslóðin sem á ekki fyrir útborgun í sitt fyrsta húsnæði. Hvað þá að þau eigi fyrir samtalsmeðferðum á einkareknum stofum hjá sjálfstætt starfandi meðferðaraðilum t.d. geðhjúkrunarfræðingum,
sálfræðingum, félagsráðgjöfum og iðjuþjálfum nema að hún verði niðurgreidd sbr. niðurgreiðslu þjónustu sjúkraþjálfara og fleiri fagstétta. Mikilvægt er að nota tækni fjarheilbrigðisþjónustu til að tryggja þverfaglega þjónustu sérfræðinga á öllu landinu. 


Ein af áskorunum stjórnvalda í geðheilbrigðismálum er að fækka þeim 40 sem á hverju ári falla fyrir eigin hendi en það eru fleiri en látast af völdum umferðarslysa. Sigurður Páll Pálsson, geðlæknir, skrifar vandaða grein um sjálfsvígsáhættumat og viðeigandi meðferð þar sem hann fer vel yfir staðreyndir um sjálfsvíg og sjálfsvígsferlið ásamt því að ræða um
sjálfsvígsfræði og sjálfsvígsforvarnir. Það er ánægjulegt að í september sl. setti heilbrigðisráðherra 25 milljónir í aðgerðaráætlun gegn sjálfsvígum á Íslandi til að hrinda í framkvæmd verkefnum til að fækka sjálfsvígum. Meðfylgjandi grein Sigurðar Páls er samantekt á aðgerðunum
frá Embættis Landlæknis en lykillinn að því að fækka sjálfsvígum á Íslandi er gott aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu ásamt því að komið sé á „fót föstum vettvangi fyrir uppbyggingu þekkingar og þróunar úrræða“ í sjálfsvígsforvörnum.


Ágústa Ingibjörg Arnardóttir og Þórey Edda Heiðarsdóttir, sálfræðingar, fjalla um díalektíska atferlismeðferð (DAM) sem notuð er í vaxandi mæli bæði fyrir unglinga og fullorðna á einkenni jaðarpersónuleikaröskunar eins og sjálfsskaða og sjálfsvígshegðun. DAM meðferðin notar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar, díalektíska heimspeki og Sen fræði.
Ágústa og Þórey Edda kynna og gera þessari meðferð góð skil í grein sinni. Sverrir Björn Einarsson, sálfræðingur og Gísli Kort Kristófersson, sérfræðingur í geðhjúkrun, skilgreina DAM sem núvitundarmiðaða hugræna meðferð í grein sinni um núvitund og hvatvísi. Kjarni núvitundarinngrips samkvæmt grein þeirra er að gefa núlíðandi augnabliki
meðvitaða athygli án þess að dæma það. Grein Sverris og Gísla er fræðilegt yfirlit yfir rannsóknir sem skoða áhrif núvitundar á hvatvísi. Bryndís Berg, hjúkrunarfræðingur, fjallar um jákvæða sálfræði, upphaf hennar, helstu kenningar og verkfæri. Grein Bryndísar er góð samantekt og þar vitnar hún í grein Sin og Lyubomirsky frá árinu 2009 að „jákvætt inngrip er það sem einstaklingur gerir með ásetningi og með að markmiði að rækta jákvæðar tilfinningar, jákvæða hegðun eða jákvæða vitund“. Allar þessar greinar gefa innsýn í fræðilega og klíníska þekkingu meðferða bæði fyrir fagfólk
og almenning. 


Alice Harpa Björgvinsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði, er fyrsti höfundur greinar um mat á árangri sérhæfðrar hópmeðferðar á félagsfælni og lágu sjálfsmati. Markmið rannsóknarinnar sem kynnt er í þessari grein
er að kanna hvort sérhæfð félagsfælnimeðferð í hópi hafi áhrif á félagsfælni og sjálfsmat. Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að meðferðin ber marktækan árangur til að draga úr félagsfælni og auka sjálfsmat þátttakenda. Ekki var um samanburðarhóp að ræða sem þó hefði styrkt rannsóknina til muna eins og höfundar koma réttilega
inn á í greininni. Þátttakendur voru 37 talsins, 31 kona og 6 karlar á aldrinum 16-59 ára. Sannarlega er um að ræða vel gerða rannsókn sem mikilvægt er að koma á framfæri. 


Greinar í þessu tölublaði Geðverndar eru ritrýndar að einni undanskilinni.  Öllu jöfnu fara tveir ritrýnar yfir greinarnar og koma með athugasemdir um hvað betur má fara. Ritrýnar Geðverndar í ár komu með ómetanlega rýni á greinarnar sem sannarlega bættu gæði þeirra. Ritrýnum eru þökkuð aðkoma að ritrýni. Grein Bryndísar Berg er námsverkefni sem fengið hefur prýðis umsögn í námi í jákvæðri sálfræði og birtist því í blaðinu án ritrýni. Á vormisseri ætlar ritstjóri og ritstjórn að semja skýrar leiðbeiningar um uppsetningu, orðafjölda, heimildavinnu o.fl. sem verða viðmið fyrir ritrýndar greinar í næstu tölublöðum Geðverndar. Þessar leiðbeiningar verða birtar á heimasíðu Geðverndarfélags Íslands á vormisseri 2019.

Viðtalið í þessu tölublaði er við Mark Bellis, prófessor í lýðheilsufræðum við Bangor Háskólann í Wales. Hann leiðir samráðsvettvang Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um fjárfestingu í heilsu og vellíðan, og situr í sérfræðiráði WHO um forvarnir gegn ofbeldi. Hann kom til Íslands á vegum Geðhjálpar og Geðverndarfélags Íslands á Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum þann 10. október sl. og hélt erindi um áföll í æsku (ACE sem er skammstöfun á e. Adverse Childhood Experiences) og hvernig þau hafa áhrif á heilsu á fullorðinsárum. Ritstjóri kallar eftir greinum í Geðvernd 2019 um þetta efni. Markmiðið verður að gefa út þemablað um áföll í æsku og afleiðingar þeirra.


Það hefur ætíð vera stefna Geðverndar að höfða til breiðs hóps lesenda um geðheilbrigðismál. Ritstjóri þakkar
höfundum þessa blaðs fyrir metnaðarfullar og fróðlegar greinar. Hann þakkar einnig stjórn, ritstjórn og framkvæmdastjóra
Geðverndarfélags Íslands fyrir samstarfið við útgáfu blaðsins.

Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir
ritstjóri Geðverndar

47. árgangur – 2018