49. árgangur 2020

Frá ritstjóra

Tímarit Geðverndarfélags Íslands 1. tbl. 49. árgangur 2020 kemur út í júlí 2021.  COVID-19 heimsfaraldur hefur haft áhrif á útgáfu þessa tölublaðs sem átti að verða efnismikið tölublað um fjölskyldumiðaða geðheilbrigðis- og geðverndarþjónustu.  Greinar skiluðu sér ekki eða illa til ritstjóra. Greinarhöfundar sem höfðu fyrirætlan að skrifa ritrýndar greinar fyrir blaðið báðu um frest á síðustu stundu og þess vegna eru færri ritrýndar greinar í þessu tölublaði en undanfarin nokkur ár.

Ólafur Grétar Gunnarsson segir frá eigin reynslu af sjálfboða- og hugsjónastarfi í tengslum við foreldra- og feðrafræðslu, í fræðslugrein sinni um fjölskylduvernd, feður og frumtengsl. Hann lýsir áhugaverðu ferðalagi þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Það rímar vel við áherslur Geðverndarfélags Íslands um aukna fræðslu fyrir foreldra og fagfólk með áherslu á að styrkja tengslamyndun ungbarna og barna við foreldra sína með það að markmiði að styrkja undirstöðu geðheilbrigðis fjölskyldna.  Norræna ráðherranefndin gaf út nýja skýrslu í júní 2021 um „Fyrstu 1000 dagana á Norðurlöndum“ sem tekur út meðferðarúrræði til að styrkja tengsl milli foreldra og barna – sérstaklega þá í tengslum við barnshafandi fjölskyldur og fyrstu æviárin.  Um er að ræða vandaða gagnreynda úttekt þar sem bæði Solihull aðferðarfræðin og Tölum um börnin forvarnarstuðningurinn, sem við þekkjum á Íslandi, eru meðal þeirra úrræða sem fjallað er um og þau metin: https://pub.norden.org/nord2021-037/nord2021-037.pdf

Áslaug Felixdóttir hjúkrunarfræðingur og Snæbjörn Ómar Guðjónsson sérfræðingur í geðhjúkrun  fjalla um í fræðslugrein sinni um geðheilbrigðis- og fjölskyldumiðaða þjónustu geðdeildarinnar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk).  Þau segja frá innleiðingu fjölskylduhjúkrunar og hópfjölskyldumeðferðar á SAk. Bæði úrræðin eru hugsuð til að efla sálfélagslegar meðferðir og markmiðið segja þau vera að veita fjölskyldum sjúklinga aukinn stuðning í veikindum. Það er gert m.a. með góðri upplýsingasöfnun, nærgætni, virðingu og ígrunduðum meðferðarspurningum en Áslaug og Snæbjörn segja að það geti dregið úr þjáningu fjölskyldna og stuðlað að bata. Þau segja jafnframt það vera „mikilvægt í nútímasamfélagi að tengja geðheilbrigðiskerfið meira út í samfélagið og tryggja að aðstandendur hafi betra aðgengi að meðferðaraðilum.“

Dr. Ásta Bjarney Pétursdóttir sérfræðingur í líknarhjúkrun með áherslu á fjölskylduhjúkrun og Dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands eru með ritrýnda grein um  fjölskyldumiðaða stuðningsmeðferð í sérhæfðri líknarþjónustu. Það er mikilvægt að huga að aðstandendum þeirra sem eru að fást við lífsógnandi sjúkdóma.  Alltaf ber að hafa í huga að veikindi hafa áhrif á alla í fjölskyldunni. Styrkleikamiðaðar meðferðarsamræður sem notaðar voru í rannsókn þeirra Ástu og Erlu Kolbrúnar, sem hafa verið þróaðar út frá Calgary fjölskyldumats- og meðferðarlíkaninu, hafa sýnt meðferðargildi sitt í tengslum við hina ýmsu sjúklingahópa og aðstandendur þeirra.  Mörgum sjúkdómum fylgir óvissa sem mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk reyni að fást við með því að veita stuðning til sjúklinga og aðstandenda. Ásta og Erla Kolbrún leggja áherslu á það að fjölskyldum „sé boðið að tjá reynslu sína af veikindaferlinu en með því megi draga úr neikvæðri tilfinningu sem fylgir óvissunni og e.t.v. hefur verið bæld og getur orðið viðvarandi þegar mikil óvissa er um framgang veikindaferlisins eða lokaferli þess.“ Rannsóknum á þjónustu og umönnun við fjölskyldur í heilbrigðisþjónustu hefur fjölgað á Íslandi og alþjóðlega.  Það má því segja að gagnreynd þekking sé smám saman að verða betri á því hvaða stuðningur er hjálplegur og líknandi bæði fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

Viðtölin að þessu sinni eru við tvo félagsráðgjafa sem hafa látið af störfum. Það eru þær Kristín Gyða Jónsdóttir og Anna Karólína Stefánsdóttir. Kristín Gyða starfaði í stjórn Geðverndarfélags Íslands um árabil og ásamt því að fást við fjölbreytt verkefni félagsstarfsins kom hún að stuðningi við íbúa áfangaheimila á vegum GÍ.  Henni eru þökkuð störf í þágu félagsins. Hún hefur alla tíð lagt áherslu á fjölskyldumiðaða þjónustu í geðheilbrigðisþjónustu og telur að það sé mikilvægt að heilsugæslan komi meira að snemmtækri íhlutun og fjölskylduvinnu.  Anna Karólína var í forsvari fyrir forvarnar- og þróunarverkefni undir heitinu Nýja barnið við Heilsugæslu Akureyrar.  Verkefnið þykir vera fyrirmynd í fjölskyldumiðaðri þjónustu og fékk viðurkenningu frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO). Í Nýja barninu var unnið með tilfinningar og tengslamyndun, áföll og áhættuþætti sem snúa að tengslamyndun foreldra og barna.  Það sýnir sig að rannsóknir á fjölskyldumiðaðri nálgun og snemmíhlutun í heilsugæslu eru að sýna fram árangur í betri geðheilsu og líðan fjölskyldna. Væri ekki nauðsynlegt, í því ljósi, að endurinnleiða verkefni í anda Nýja barnsins í heilsugæslur landsins?

 

Eydís Kristín Sveinbarnardóttir, ritstjóri

49. árgangur 2020