45. árgangur – 2016

Frá ritstjóra

Að þessu sinni er efni blaðsins fjölbreytt. Ánægjulegt er að þrjár af greinum
blaðsins byggja á meistaraprófsritgerðum. Varla er hægt að ná lengra í gæðum
og dýpt efnis sem kynnt er. Einnig er að vanda mis ítarleg kynning á mikilvægum
málefnum og meðferðum sem eru í þróun.

Fyrsta efni tímaritsins eru ljóð eftir einstakling í góðum bata. Þetta á vel við því
aldrei má gleyma því að þrátt fyrir erfið áföll og geðsjúkóma er hægt að ná góðum
bata. Ljóðin lýsa að mörgu leyti þeim hugarfarsbreytingum sem eiga sér stað í
bataferlinu. Sama þema kemur fram í fyrstu vísindagreininni því hún lýsir mikilvægi
þess að halda í vonina. Ryðja þarf úr vegi fordómum og öðrum hindrunum.
Önnur greinin lýsir aðferðum við að ná tökum á tilverunni við streitu og hvernig
er hægt að fyrirbyggja slíkt. Mikilvægt efni og flókið því streita er orsakaþáttur í
öllum sjúkdómum, ekki síst geðsjúkdómum. Þriðja vísindagreinin lýsir vel hvað
nauðungaraðgerðir eru og bent er á mikilvægi þess að rannsaka þær betur. Þetta
er mikilvægt vegna mögulegs skaða nauðungar í meðferð sjúklinga. Ritstjóri taldi
þörf á að kynna það efni betur í ljós tveggja greina í síðasta tölublaði Geðverndar
sem sýndi að þær eru alls ekki nógu vel skráðar á Íslandi. Fjórða vísindagreinin fjallar
um ný mælitæki sem gera mögulent að fylgjast enn betur með árangri viðtalsmeðferðar
og um leið upplifun sjúklinga í meðferðinni. Fimmta vísindagreinin fjallar um
vímuefnaneyslu og áhættuhegðun unglinga með þroskahömlun. Þetta er mikilvægt
framlag því efnið virðist enn fremur lítið rannsakað hjá þessum viðkvæma
hópi. Sjötta og sjöunda greinin eru kynningar á nýjungum í meðferð, annars vegar
um gildi hreyfingar við geðrænum vandamálum og hreyfiseðlakerfið sem þegar er
í notkun á Íslandi. Hins vegar er kynning á Batamiðstöðinni sem er nýung í starfssemi
endurhæfingar geðsviðs LSH og er hugsuð sem brú út í samfélagið. Áttunda
vísindagreinin kynnir rannsókn á nýjung í þunglyndismeðferð sem gæti gagnast
þeim sem ekki fá fullnægjandi bata í dag með hefðbundinni meðferð þunglyndis.
Geðverndarfélag Íslands hefur alla tíð haft þá stefnu að fræða breiðan lesendahóp
um geðverndarmál. Í þetta sinn var fagfólk beðið um efni samkvæmt tillögu ritstjóra.
Allir lögðu sig fram og metnaður höfunda var til fyrirmyndar. Ég vil þakka þeim fyrir
störf sín sem unnin eru með öðrum föstum störfum án nokkurrar umbunar. Einnig
vil ég þakka ritrýnum en vegna reglna um slík störf er ekki hægt að geta þeirra hér.
Stjórn og starfsmönnum Geðverndarfélagsins vil ég sérstaklega þakka en þeir hafa
lagt á sig mikla vinnu.

Góð fræðsla og aukin þekking er grundvöllur framfara og umbóta fyrir geðsjúka og
aðstandendur þeirra. Góðar grunnrannsóknir eru hér lykilatriði.

Sigurður Páll Pálsson
ritstjóri Geðverndar

45. árgangur – 2016