Frá ritstjóra
Þema blaðsins er vonandi fjölbreytt fyrir lesendur.
Við þökkum Magnúsi Þór Jónssyni, Megasi fyrir ljóðið ,,Vandgeðja“, sem hann samdi fyrir félagið í tilefni af 60 ára afmælis Geðverndarfélagsins.
Fyrsta greinin er um gildi samtalsins í meðferð. Samtalið er jú hornsteinn allrar meðferðar. Vinna gegn tóbaksfíkn er kynnt og skilja allir hversu mikilvæg hún er fyrir sjúklinga. Einstaklega skemmtilegt er að kynna vinnu sjúklinga og hjúkrunarfræðinga sem myndað hafa sérstakan ,,Geðklofahóp“. Gott yfirlit er um jóga og gildi þess við geðrækt. Yfirlitsgrein er um forvarnir þunglyndis hjá ungmennum, nokkuð sem allir ættu að skilja að skiptir miklu máli fyrir framtíðina. Að lokum er kynnt ný stjórn Geðverndarfélagsins og stefnumörkun þess til næstu ára. Vonandi tekst okkur öllum að vinna ötullega að þessum málum.
Geðverndarfélag Íslands hefur alla tíð haft þá stefnu að fræða breiðan lesendahóp um geðverndarmál. Allir höfundar lögðu sig fram og metnaður höfunda var til fyrirmyndar. Ég vil þakka þeim fyrir störf sín sem unnin eru með öðrum föstum störfum án nokkurrar umbunar. Einnig vil ég þakka ritrýnum en vegna reglna um slík störf er ekki hægt að geta þeirra hér. Stjórn og starfsmönnum Geðverndarfélagsins vil ég sérstaklega þakka en þeir hafa lagt á sig mikla vinnu.
Góð fræðsla og aukin þekking er grundvöllur framfara og umbóta fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra. Með von um að efni blaðsins nýtist leikum sem lærðum
Sigurður Páll Pálsson
Ritstjóri Geðverndar