50. árgangur 2022

Frá ritstjóra.

Tímarit Geðverndarfélags Íslands 1. tbl. 50. árgangur kemur út í upphafi árs 2023. Að venju fjalla greinar í  tímaritinu um mikilvæga þætti í geðheilbrigðismálum. Tímaritið skapar vettvang til að skrifa bæði ritrýndar og fræðslugreinar um geðheilbrigðismál og – þjónustu.  Ritstjóri reynir að kalla eftir greinum um nýsköpun og rannsóknir í geðheilbrigðismálum frá fagfólki, notendum og aðstandendum.  Það er einnig mikilvægt að fá greinar þar sem farið er yfir stöðu þekkingar á afmörkuðum sviðum málaflokksins – þar sem þekking og þróun í geðheilbrigðismálum og -meðferðum er í stöðugri framþróun.

Íris Björk Indriðadóttir, sálfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kynnir í ritrýndri grein rannsókn sem skoðaði geðrænan vanda meðal fólks með þroskahömlun og aðgengi þess að geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Skv. niðurstöðum rannsóknar höfðu 66% þeirra sem svöruðu rannsókninni ekki aðgang að geðheilbrigðisþjónustu.  Talið er að skortur á sérhæfðu fagfólki til að sinna fólki með þroskahömlun og geðrænan vanda stuðli að takmörkun á aðgengi og gæðum þjónustu við þennan hóp.

Anna Karen Guðmundsdóttir og Sigríður Elín Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingar ásamt Dr. Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, geðhjúkrunarfræðingi framkvæmdu fræðilega samantekt um gagnreynd stuðningsúrræði fyrir börn sem eiga foreldri með lyndisröskun. Niðurstöður fræðilegu samantektarinnar er kynnt í þessari ritrýndu grein.  Stuðningur við börn þar sem foreldrar eru að fást við geðrænan vanda hefur verið í þróun á sl. tveimur áratugum en með viðeigandi stuðningi má stuðla að betri heilsu barnanna.  Gagnreynd þekking á verndandi þáttum þessara barna, og það sem er sammerkt með úrræðum sem bera árangur, er að koma í ljós og má segja að forvarnargildið sé ótvírætt. Löggjöf frá 2019 (viðbót við lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997) tryggir rétt barna til upplýsinga, stuðnings og eftirfylgni frá heilbrigðisstarfsfólki. Á Íslandi er heilbrigðiskerfið að taka við sér í kjölfar þessarar lagasetningar – en betur má ef duga skal.

Viðtalið í tímaritinu er við þær Sigríði Gísladóttur, framkvæmdastjóra og Þórunni Eddu Sigurjónsdóttur, félagsráðgjafa hjá Okkar heimur.  Viðtalið segir frá frumkvöðlastarfi Sigríðar og Þórunnar Eddu í að innleiða stuðningsúrræðið Okkar heimur (OurTime) fyrir foreldra og börn þar sem foreldri/ar eru að fást við geðrænar áskoranir. Stuðningurinn fer fram í gegnum fjölskyldusmiðjur sem haldnar eru reglulega af Okkar heimur.  Okkar heimur hélt fyrstu smiðjuna í september 2021 á vegum Geðhjálpar. Okkar heimur varð sjálfstætt úrræði í febrúar 2022 en í hverri smiðju sem haldin er geta tekið þátt tíu til tólf fjölskyldur. „Tilgangurinn með þessu [fjölskyldu smiðjum] er að skapa samfélag af fjölskyldum sem eru að fást við líkar áskoranir, sjúkdómnum fylgir oft félagsleg einangrun þannig að smiðjan tengir fólk saman. Miklu skiptir einnig að börn hitti önnur börn og sjái að fleiri en þau ein glíma við þennan vanda.“ Sigríður og Þórunn Edda segja að það sé mikilvægt að hjálpa foreldrum að ræða við börnin um geðsjúkdóma.  Geðverndarfélagið óskar þeim velfarnaðar í þessu mikilvæga verkefni sem Okkar heimur er.

Ljóðin „Djúpið“ og „Veikindi“ eftir Ferdinand Jónsson, geðlækni birtast með leyfi höfundar í tímaritinu Geðvernd.  „Djúpið“ er úr ljóðabókinni „Í úteyjum“  frá 2016 og  „Veikindi“ er úr ljóðabókinni „Innsævi“ frá 2013. Ritstjóri þakkar Ferdinand fyrir þessi fögru ljóð sem snerta margar tilfinningar.

Fræðslugrein Helenu Davidsen félagsráðgjafa tekur okkur tilbaka í COVID-19 árin en hún skrifar um áhrif takmarkana í COVID-19 á geðheilsu fólks með alvarlegar geðraskanir og áskoranir í geðheilbrigðisþjónustu. Helena veltir upp ólíkum niðurstöðum rannsókna varðandi áhrif takmarkana á geðheilsu fólks með alvarlegar geðraskanir. Það er mikilvægt að velta afleiðingum COVID-19 á geðheilsu fyrir sér vegna þess að oft er um langtíma afleiðingar ræða sem koma í ljós síðar.

Fyrstu tvær greinarnar í þessu tölublaði Geðverndar eru ritrýndar. Ritrýnar Geðverndar í ár komu með ómetanlega rýni á greinarnar sem sannarlega bætti gæði þeirra. Ritrýnum er þakkað þeirra framlag.

Það hefur ætíð verið stefna Geðverndar að höfða til breiðs hóps áhugafólks um geðheilbrigðismál. Ritstjóri þakkar höfundum þessa blaðs fyrir metnaðarfullar og fróðlegar greinar. Hann þakkar einnig stjórn, ritstjórn og framkvæmdastjóra Geðverndarfélags Íslands fyrir samstarfið við útgáfu blaðsins.

 

Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir

ritstjóri Geðverndar

Gedvernd_50_2022_Vefur

 

 

 

 

 

 

 

50. árgangur 2022