46. árgangur – 2017

Frá ritstjóra

Umfjöllun fjölmiðla um geðheilbrigðismál á Íslandi verður því miður oftast í tengslum við atvik og meðferð þar sem þjónusta við geðsjúka og fjölskyldur þeirra mætti betur fara. Auðvitað skiptir sú umfjöllun máli og ætti að stuðla að úrbótum í þjónustu. Mikilvægt er að gagnrýna á uppbyggilegan hátt. Það sem gleymist gjarnan er að geðheilbrigðismál eru afar viðkvæmur málaflokkur og þegar hann er vanræktur kemur það fljótlega alvarlega niður á notendum þjónustunnar. Málaflokkurinn getur ekki byggst á tímabundnu átaki eða hugsjónaverkefnum þó slík verkefni geti verið góður stuðningur við grunn opinbera geðheilbrigðisþjónustu sem er í góðu horfi. Forsenda hennar hlýtur að vera fullmönnuð þverfagleg teymi sérfræðinga og þjónusta byggð á gagnreyndri þekkingu á öllum æviskeiðum. Það er erfitt að þurfa að setja það í orð og staðfesta skoðun margra geðheilbrigðisstarfsmanna að geðheilbrigðisstefnur undanfarna áratugi hafa verið settar fram til málamynda, án metnaðar og raunverulegs stuðnings Alþingis og ríkisstjórna. Nauðsynlegt  er að opinber geðheilbrigðisþjónusta sé sýnileg í allri grunnþjónustu heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa og sveitarfélaga. Úrræði grunnþónustunnar þurfa að byggjast á  þróun þekkingar í geðheilbrigðisvísindum.

Framlag Geðverndarfélags Íslands til umræðu og þekkingarþróunar um geðheilbrigðismál felst m.a. í því að gefa út tímaritið Geðvernd árlega. Í ár kemur 46. árgangur tímaritsins út með fjölbreyttu efni. Fimm greinar birtast í þessu blaði eftir sérfræðinga í geðheilbrigðismálum. Gæði greinanna í gæðum og dýpt eru veruleg og mikilvæg framlög í málefnum og meðferð, þær endurspegla einnig þá þróun sem nú á sér stað í vísinda- og meðferðarsamfélaginu í geðheilbrigðismálum á Íslandi.

Í tímaritinu er greint frá rannsókn á starfi varnarteymis starfsmanna á  geðsviði Landspítala  sem tókst á við  148 skráð útköll  árin 2014-2015 þar sem  í 58,1% tilvika þurfti  að halda sjúklingum kyrrum, 31 karli og 25 konum. Greinin ræðir mikilvægi þess að starfsfólk geðdeilda verði að vinna ötullega að því að afla sér þekkingar og færni til að takast á við árásargjarna heðgðun sjúklinga án þess að halda þeim kyrrum en þegar það er metið nauðsynlegt er mikilvægt að það sé gert af varkárni og fagmennsku. Jón Snorrason, sérfræðingur í hjúkrun á geðsviði Landspítala, fyrsti höfundur þessarar greinar á heiður skilinn, að öðrum ólöstuðum, fyrir þrautseigju sína í að viðhalda þeirri hefð á geðsviði Landspítala að nota ekki fjötra heldur þróa mannúðlegar aðferir til að takast á við árásargjarna sjúklinga.

Bryddað er upp á þeirri nýjung  í þessu tímariti að vera með viðtal en það er við Sigurþóru Bergsdóttur vinnusálfræðing, móður Bergs Snæs, ungs drengs sem féll fyrir eigin hendi í kjölfar kynferðilegs ofbeldis og áfalla. Viðtalið varpar ljósi á hvað geðheilbrigðiskerfið á langt í land að byggja upp samfellda og aðgengilega heilbrigðisþjónustu sem heldur utan um ungmenni sem lenda í alvarlegum áföllum. Ritstjóri tekur undir með Sigurþóru að heilsugæslan eigi að vera með teymi fyrir þennan hóp og starfið eigi ekki að byggjast á heimsóknum á stofnanir. Viðtalinu er fylgt eftir með vísindagrein um geðræn vandamál sem geta verið afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku hjá körlum. Fyrsti höfundur þeirrar greinar er Sigrún Sigurðardóttir, lektor og formaður Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri. Hún hefur ítrekað bent á að það sé mikilvægt að auka þekkingu og dýpka skilning á afleiðingum kynferðislegs ofbeldis í æsku hjá drengjum og ætla megi að raunverulegar tíðni (3-23%) séu hærri en talið er vegna þess að karlar með slíka reynslu eru ólíklegir að segja frá henni. Í maí 2017 var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni Einn blár strengur sem fjallaði um kynferðislegt ofbeldi í æsku hjá drengjum. Einn af aðal fyrirlesurum ráðstefnunnar var forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson en hann var einnig verndari ráðstefnunnar.  Í grein Sigrúnar Sigurðardóttur og Sigríðar Halldórsdóttur birtist hluti úr erindi hans á ráðstefnunni.

Ingibjörg H. Jónsdóttir, prófessor við Háskólann í Gautaborg, skrifar grein um geðraskanir og streitu og þá breytingu á áherslum frá því að skoða streituna eingöngu út frá einum einstaklingi í það að horfa meir á starfsskilyrði og aðstæður á vinnustöðum þar sem fólk vinnur. Hún telur að huga þurfi sérstaklega að starfsumhverfi kvenna og heldur því fram að ef konur og karlar ynnu við sömu streitutengdu aðstæðurnar þá væru líkurnar á streitutengdum einkennum þær sömu hjá báðum kynjum. Í framhaldi af grein Ingibjargar er grein um núvitund sem í vaxandi mæli er notuð til að auka heilbrigði og takast á við streitu í nútímasamfélagi. Gísli Kort Kristófersson, lektor við Háskólann á Akureyri, fjallar um notagildi núvitundar fyrir fagfólk í geðheilbrigðisþjónustu og sýnir dæmi um rannsóknir þar sem núvitundarinngrip hafa verið löguð að þörfum ólíkra hópa innan hennar.

Guðbjörg Ottósdóttir, lektor við Háskóla Íslands, er fyrsti höfundur greinar sem fjallar um börn í ábyrgðarhlutverkum. Greinin bendir á að á Íslandi  er lítil þekking á börnum í ábyrgðarhlutverkum og þjónusta af skornum skammti en afar mikilvægt sé að auka þekkingu á aðstæðum þessa hóps og að löggjöf tryggi þessum hóp aukna þjónustu. Greinin er mikilvægt innlegg í  umfjöllun um snemmtæk inngrip við börn sem lifa við erfiðar lífsaðstæður eins og alvarleg veikindi foreldra. Það kemur fram í formannspistli Gunnlaugar Thorlacíus í þessu tölublaði að  aðgerðir sem styðja foreldra í uppeldis- og umönnunarhlutverki hafa víðtæk jákvæð áhrif á samfélagið í heild og skila sér í farsælli skólagöngu, minna brottfalli, færri glæpum, betri atvinnu og efnahagsstöðu.

Önnur nýjung í tímaritinu er að vera með viðtöl þar sem fram koma mismunandi sjónarmið um málefni sem tengjast geðheilbrigðismálum. Umræðuefnið í þetta skiptið er: Á Kleppur að heita Kleppur?  Margrét Manda Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri og Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á geðsviði Landspítala greina frá sjónarmiðum sínum. Ritstjóri tekur undir þau sjónarmið sem fram koma, en bendir á að mögulega eru það notendur þjónustunnar og fjölskyldur þeirra sem hljóta að hafa síðasta orðið um hvort að Kleppsnafnið komi til með að lifa af.

Heiðursfélagi Geðverndarfélags Íslands, Tómas Helgason, geðlæknir og prófessor, lést þann 3. desember 2017. Honum eru þökkuð óeigingjörn störf í þágu tímaritsins Geðverndar. Hinsta kveðja frá stjórn GÍ er hluti af efni blaðsins.

Það hefur ætíð verið stefna tímaritsins að höfða til breiðs lesendahóps um geðheilbrigðismál. Ritsjóri vill þakka höfundum þessa blaðs fyrir metnaðarfullar greinar. Einnig vil ég þakka ritrýnum en eðli máls samkvæmt verður þeirra ekki getið hér. Stjórn og starfsmönnum Geðverndarfélagsins þakka ég sérstaklega en þau hafa lagt á sig mikla vinnu við útgáfu tímaritsins. Góð miðlun fræðslu og  gagnreyndrar þekkingar er grundvöllur framfara og umbóta fyrir geðsjúka og fjölskyldur þeirra.

Sigurði Páli Pálssyni, geðlækni eru þökkuð ritstjórastörf síðastliðinn áratug fyrir tímaritið Geðvernd.  Hann mun þó halda áfram að vinna í þágu tímaritsins og mun sitja í ritstjórn þess ásamt Margréti Ófeigsdóttur, félagsráðgjafa og Brynjari Emilssyni, sálfræðingi.  Eggerti Péturssyni listmálara eru þakkaðar fallegar forsíður tímaritsins undanfarin sex ár en ákveðið var að skipta um forsíðu á tímaritinu inn í næstu tíð en Ólafur Haraldsson hannaði nýja forsíðu Geðverndar.

Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir
ritstjóri Geðverndar

 

 

46. árgangur – 2017