40. árgangur – 2011

Frá ritstjóra

Að þessu sinni er efni blaðsins fjölbreytt. Gott yfirlit er um stefnumótun í geðheilbrigðismálum. Hið erfiða og viðkvæma efni sjálfsvíg er skoðað og útskýrt á vandaðan hátt. Geðrækt geðsjúkra og valdeflingarnálgun er lýst. Mikilvæg reynsla einstaklings af eigin veikindum, þar sem viðkomandi er einnig fræðimaður, vekur margar spurningar en er um leið mjög góð og gefandi lýsing á þeim möguleikum sem finnast til bata. Sálgæslu eru gerð góð skil. En lokagreinin að þessu sinni fjallar um viðhorf almennings og annarra hópa til refsinga gagnvart geðsjúkum. Það efni mun án efa verða, ásamt öðrum greinum blaðsins, hvatning til frjórrar umræðu um framtíðarviðhorf, úrræði, meðferð og réttan stuðning fyrir geðsjúka.

Geðverndarfélag Íslands hefur þá stefnu að fræða breiðan lesendahóp um geðverndarmál. Allir lögðu sig fram og metnaður höfunda var til fyrirmyndar. Ég vil þakka þeim fyrir þeirra störf sem unnin eru með öðrum föstum störfum, án nokkurrar umbunar. Einnig vil ég þakka ritrýnum en vegna reglna um slík störf er ekki hægt að geta þeirra hér. Sérstakar þakkir fá ritstjórn Geðverndar (Brynjar Emilsson, Sveinbjörg J.Svavarsdóttir og Sylvía Ingibergsdóttir) svo og stjórn og starfsmenn Geðverndarfélagsins en þeir hafa lagt á sig mikla vinnu.

Góð fræðsla og aukin þekking er grundvöllur framfara og umbóta fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra.

Sigurður Páll Pálsson
ritstjóri

40. árgangur – 2011