41. árgangur – 2012

Frá ritstjóra

Þema blaðsins er að þessu sinni tengt geðvernd barna og ungmenna. Af mörgu var að taka en ritstjóri vill benda á að þegar hefur verið birt í fyrri tölublöðum um snemmgreiningu geðklofa (1. tbl. 2006; bls 6-9, sjá www.gedvernd.is, tímaritið Geðvernd) og um greiningu geðhvarfa hjá börnum og unglingum (1. tbl. 2005; bls 13-17).

Sérstakar þakkir færi ég Styrmi Gunnarssyni fyrir að hafa góðfúslega leyft okkur að birta erindi hans um reynslu hans og fjölskyldu af erfiðum geðsjúkdómi. En erindi hans var framlag GÍ á ráðstefnu „NordicForum för barn“ í vor í Osló.

Fyrsta fræðigreinin er gott yfirlit yfir þróun kvíða og kvíðaraskanir barna. Önnur fræðigrein er um geðvernd barna og verndandi þætti. Fræðigreinar þrjú og fjögur lýsa skólahöfnun og eineltisforvörnum í grunnskóla. Síðustu þrjár greinarnar lýsa þjónustu við foreldra á meðgöngu og eftir fæðingu. Grein er um sjálfshjálparhópa fyrir unga aðstandendur (ungmenni) sem alast upp hjá foreldrum sem glíma við geð- eða fíknisjúkdóma og lýst er EMDR meðferð við áfallastreitu. Einstaklega skemmtilegt er að kynna svona frumkvöðlavinnu.

Að lokum er efni frá stjórn Geðverndarfélagsins og verkefni og atburðir ársins raktir. Vonandi tekst okkur áfram að vinna ötullega að geðverndarmálum. Geðverndarfélag Íslands hefur alla tíð haft þá stefnu að fræða breiðan lesendahóp um geðverndarmál. Allir höfundar lögðu sig fram og metnaður höfunda var
til fyrirmyndar.

Ég vil þakka þeim fyrir störf sín sem unnin eru með öðrum föstum störfum án nokkurrar umbunar. Einnig vil ég þakka ritrýnum en vegna reglna um slík störf er ekki hægt að geta þeirra hér. Stjórn og starfsmönnum Geðverndarfélagsins vil ég þakka en þeir hafa lagt á sig mikla vinnu.

Góð fræðsla og aukin þekking er grundvöllur framfara og umbóta fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra. Með von um að efni blaðsins nýtist leikum sem lærðum.

Sigurður Páll Pálsson

Ritstjóri Geðverndar

41. árgangur – 2012